137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:42]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er bara klinkmál að tala um jarðgöng til Eyja miðað við þúsund milljarðana hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur. Jarðgöng til Eyja munu kosta 25 milljarða plús mínus. (Gripið fram í: Plús mínus hvað?) Jarðgöng til Vestmannaeyja munu fyrst og fremst vera arðbær viðskipti sem munu lækka rekstrarkostnað og styrk til ríkissjóðs í samgöngum úr um það bil 2 milljörðum á ári yfir í mínus, yfir í 1 milljarð í plús. Þetta er mergurinn málsins. Það er tvisvar til þrisvar sinnum dýrara að reka ferjur til Landeyjahafnar eða Þorlákshafnar á 30 ára tímabili, tveggja skipa tímabili, en byggja jarðgöng til Vestmannaeyja. Það eru bara viðskipti eins og Hvalfjarðargöngin eru, bara „bisness“. Og til að gleðja samfylkingarmenn munum við í beinu framhaldi af jarðgöngum til Eyja hefja borun ganga út í Evrópu og það verður það sem þeir fá í restina og ekkert annað.

Ég get, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, virðulegi forseti, stutt fyrirvarana eins og þeir eru í dag en þeir eiga eftir að fara í vinnslu, málið er ekki hægt að afgreiða eins og stendur. Þess vegna styð ég framlag framsóknarmanna sem vilja styrkja stöðuna og hnýta þetta upp þannig að eitthvað sé í hendi en ekki bara í skógi eða von, von um blíðu eða ljós. Við lifum ekki á því.