137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[23:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni fyrr í dag að hlegið væri að íslensku þjóðinni á erlendri grundu. Ég held að það sé alrangt eins og kom fram í samtölum við t.d. sendiherra Breta sem benti á að reiðin í Bretlandi beindist að þeim sem stofnuðu til bankanna og það er sama reiðin og almenningur ber til þessara manna.

Við eigum að tala varlega úr þessum ræðustól. Það er rétt að einhverjir forsvarsmenn Samfylkingarinnar hafa haft rangar upplýsingar undir höndum þegar þeir tóku ákvarðanir, en þá verður einnig að koma fram að það kunna aðrir að hafa gert. Við erum hins vegar að taka ákvörðun hér og nú um að skuldbinda almenning upp á 1.000 milljarða. Við ætlum ekki að gera það samkvæmt reglugerðarverki Evrópusambandsins, við ætlum að gera það langt umfram skyldu. (Forseti hringir.) Það munar einum 350 milljörðum, það er sá fórnarkostnaður sem þjóðin mun sitja uppi með eftir þá ákvörðun sem verður tekin hér á næstu dögum. (VigH: Íslenska leiðin.)