137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Svo því sé til haga haldið sagði hv. þingmaður að eftir 18. júlí hefðu engin ný gögn komið. Ég hef verið í þessum sjónarmiðum sem Ragnar Hall síðan fylgdi, ég tók þau upp hér í þingræðu en að halda því fram að engin ný gögn hafi komið eftir 18. júlí er í besta falli mikið yfirlæti.

Ef menn meina að þeir vilji þverpólitíska samstöðu, ef menn meina það að við komum með skýr skilaboð til umheimsins, liggur alveg fyrir að menn þurfa þá að breyta þeim áherslum sem stjórnarliðar hafa verið með í umræðunni. Það mun líka reyna á það núna hvort menn vilji skoða á milli umræðna hvaða áhrif þessir fyrirvarar hafa í fullri alvöru.

Maður fær á tilfinninguna þegar maður hlustar á hv. þingmann og marga aðra stjórnarliða að þetta sé allt gert bara svona til að friða einhverja því (Forseti hringir.) að það standi ekkert á bak við þetta hjá stjórnarliðunum. (Forseti hringir.) Það er alvarlegt, ekki fyrir okkur í stjórnarandstöðunni, það er alvarlegt fyrir þjóðina. (Gripið fram í: Rétt.)