137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að minna á það sem ég ræddi við hæstv. fjármálaráðherra í gær að við breytum ekki fortíðinni, það mættu margir hafa í huga. Við lærum af henni en við breytum henni ekki. Á hverjum tíma tökum við afstöðu til mála miðað við þá stöðu sem þá er komin upp en ekki þá stöðu sem var eða við gjarnan vildum hafa heldur verðum við að horfast í augu við raunveruleikann.

Ég ætla í örstuttu máli að fara í gegnum hrunið. Ástæðurnar voru lágir vextir á heimsmarkaði, mikið framboð af fé, gífurleg áhættutaka hjá íslenskum fyrirtækjum, krosseignarhald og allt of stór fjármálamarkaður í hlutfalli við landsframleiðslu. Ábyrgðin var hjá þeim lánveitendum sem lánuðu bönkunum, þ.e. erlendu aðilunum, bönkunum, ábyrgðin var hjá bankastjórnendunum, eftirlitinu, framkvæmdarvaldinu, Evrópusambandsreglunum, Fjármálaeftirlitinu og bresku og hollensku fjármálaeftirlitunum, sem voru líka í heilmikilli ábyrgð því að þau áttu að tryggja neytendavernd í þessum löndum en gerðu ekki. Svo var það löggjöf Evrópusambandsins sem er meingölluð að öllu leyti eða að mörgu leyti.

Mistökin voru gífurlega mörg og það síðasta er þessi samningur sem við erum að fjalla um núna. Þau voru bæði langt aftur í tímann, í hruninu sjálfu og eftir hrun. Áföllin sem þjóðin varð fyrir eru gífurlegt eignahrun á mörgum sviðum, gjaldþrot fyrirtækja, atvinnuleysi og mjög slæm staða ríkissjóðs sem kemur fram í skerðingum á félagslegri þjónustu og skattahækkunum.

Icesave-innlánin, stikkorð: Stutt saga. Hún er ótrúlega stutt. Í Bretlandi hófst þetta 2006, í Hollandi í maí 2008, stóð í þrjá mánuði og féll undir neytendavernd hollenska fjármálaeftirlitsins. Það er bara þannig. Síðan kemur upp ótti Breta og Hollendinga þegar bankarnir íslensku fara á hausinn, ótti þeirra við bankahrun, bankaáhlaup, að það komi „run“ á bankana, sem kallað er. Það er það sem fjármálamenn og ráðherrar og ríkisstjórnir alls staðar óttast mest af öllu. Það er þessi ótti Breta og Hollendinga sem gerði það að verkum að þeir ákváðu að láta skattgreiðendur greiða innstæðurnar í stað þess að fjármálastofnanirnar sjálfar, bankarnir sjálfir greiddu þær eins og gert er ráð fyrir í tilskipun Evrópusambandsins. Þetta er þeirra ákvörðun, það þarf að halda því til haga.

Þeir fengu samstöðu Evrópusambandsins og m.a.s. Noregs með sér í því að kúga Íslendinga til að standa við þessa Icesave-samninga vegna þessa ótta, sameiginlega ótta allra landa við bankaáhlaup. Það er skýringin. Það var hafin hérna kúgun á Íslendingum, viðskiptastríð, gengismarkaður, það var ekki hægt að millifæra innstæður í útlöndum til Íslands og Íslendingar þurftu að fara að staðgreiða vörur. Þetta var miklu alvarlegri staða en almennt er kunnugt, miklu alvarlegri. Menn voru m.a.s. farnir að óttast um að þeir ættu ekki fyrir lyfjum og olíu.

Svo kom Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, menn hótuðu með Evrópska efnahagssvæðinu, að það hryndi. Lánakjör urðu óbærileg og þetta var sem sagt röð af hótunum til þess að fá Íslendinga til að samþykkja. Og Íslendingar hafa náttúrlega ekkert í þetta ofurefli að gera.

Icesave-samningurinn í stikkorðum er eins slæmur og hægt er. Það er nánast eins og Hollendingar — ég geri ráð fyrir að þeir hafi verið duglegri en Bretar — hafi komið með tilbúinn samning hingað sem nefndin skrifaði undir eftir tvo daga. Svo fóru þeir heim og eru sennilega enn þá glaðir, þeir embættismenn sem stóðu að þessu. Þar kom inn ábyrgð Vinstri grænna, hún hafði ekki verið þangað til, og er þá einungis Borgarahreyfingin eftir sem ekki ber neina ábyrgð neins staðar.

Áhætturnar í stuttu máli; það er lagaóvissa hvort við eigum að greiða yfirleitt, eins og ég nefndi, hvort neyðarlögin haldi í breskum rétti. Svo er Ragnars Halls-dæmið og nýjar reglur Evrópusambandsins, hvort við getum notað þær ef þær skyldu verða afturvirkar um innlánstryggingarkerfið og þær eru í burðarliðnum. Svo eru það endurheimtur eigna Landsbankans, hversu hratt þær greiðast og svo eru það neyðarlögin, hvaða áhrif þau hafa á endurheimturnar, gengisþróun punds og evru gagnvart öðrum myntum. Ef pundið verður allt í einu mjög dýrt, hækkar í verði vegna verðhjöðnunar í Bretlandi og annað slíkt, getur áfallið fyrir Íslendinga orðið gífurlegt. Og ef hagvöxtur á Íslandi verður enginn þá getum við ekki borgað neitt. Það er segin saga, við höfum nóg með hin áföllin, ef hagvöxtur vex ekki neitt, ef landsframleiðslan vex ekki neitt og enginn hagvöxtur í 10, 15 ár þá getum við ekki borgað, þá mundum við m.a.s. illa ráða við bankahrunið eitt sér innan lands, hvað þá að taka á okkur viðbótarskuldbindingar, það er útilokað. Þeir sem ekki trúa því ættu að kynna sér stöðuna þar sem ekki er hagvöxtur eins og í sumum ríkjum Afríku. Fólksflótti getur líka haft áhrif. Allt eru þetta áhættur sem þessi samningur dekkar ekki, hann býr til þessar áhættur.

Ég má til með rétt aðeins að fara yfir: Hvað þýðir áhætta? Eftir 20 ár, árið 2029 um þetta leyti getum við litið til baka og þá getum við sagt: Nú, þetta var ekkert mál með Icesave. Hér var gífurlegur hagvöxtur, endurheimturnar urðu 120% af eignum Landsbankans og það gerðist bara ekki neitt, við borguðum varla nokkurn skapaðan hlut, okkur munaði ekkert um þetta. Þetta getur gerst. En það getur líka gerst að hagvöxtur verði enginn, landflótti og það endurheimtist lítið af eignum Landsbankans, við þurfum að borga eitthvað gífurlegt og hér verði mikil fátækt. Það er það sem við verðum að hindra. Eftir 20 ár munum við sjá hvernig þetta fór, það eru áhætturnar sem fylgja þessum samningi og það er ekkert tekið á því í samningunum, ekki neitt.

Margir sjá vandamál úti um allt, aðrir sjá lausnir úti um allt og ég vil sjá lausnir. Strax í haust byrjaði ég að tala um að við yrðum að takmarka þessa Icesave-áhættu með 1% af landsframleiðslu í tíu ár. Ég endurtók þetta aftur og aftur og sagði það hvar sem var við alla þá sem nenntu að heyra. Síðan í umfjöllun efnahags- og skattanefndar kom fram hjá Jóni Daníelssyni að mig minnir að þetta væri ekki nógu sniðugt vegna þess að ef það yrði enginn hagvöxtur gætum við ekki borgað hvort sem er, það væri hallæri ef það yrði enginn hagvöxtur þannig að 1% af landsframleiðslu mundi verða mjög dýrkeypt. Þá datt mér í hug að taka hlutfall af hagvextinum, að taka bara hlutfall af aukningu landsframleiðslu. Það eru einmitt þær hugmyndir sem nú eru komnar inn í textann að það er tekin aukning á landsframleiðslunni, þ.e. hlutfall af hagvextinum. Og varðandi gengisáhættuna datt mér í hug að reikna þetta einfaldlega í pundum og evrum og það sýnir sig að leysa málið ansi vel. Þessar hugmyndir kynnti ég Sjálfstæðisflokknum 19. júlí og þær hafa sem sagt verið hérna í umræðu og eru núna komnar inn í þennan texta og ég er afskaplega ánægður með það og get þar af leiðandi stutt þessar breytingartillögur. (Gripið fram í.)

Forsendur bæði Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans voru mjög bjartsýnar. Þeir gerðu ráð fyrir 3% hagvexti og að það yrði tiltölulega létt að borga þessar Icesave-skuldbindingar miðað við þær forsendur. Þá gerði ég einmitt það, ég sagði við Seðlabankann: Reiknið þið út hversu stór hluti af aukningu landsframleiðslu með þeirra forsendum gerir það að verkum að við borgum nákvæmlega það sama. Það kom út að það þurfti í tilfelli Bretanna 3,85%, sem síðan var hækkað upp í 4%, og 1,95% gagnvart Hollendingum af aukningu landsframleiðslu til þess að borga allar kröfur Icesave-samninganna miðað við að forsendur Seðlabankans gangi eftir og þá er þetta ekkert mjög þungbært. Þetta er sem sagt komið inn í þessar hugmyndir sem gerir það að verkum að ef enginn hagvöxtur verður eða ef pundið hækkar mjög mikið borgum við ekki neitt.

Þetta leysir mjög margt og það er búin að fara mjög mikil vinna í þetta hjá þeim hagfræðingum sem eru í efnahags- og skattanefnd — reyndar utan nefndarinnar. En menn hafa farið í gegnum þetta og reynt að finna á þessu veilur og það má vel vera að það séu veilur á því. Ég vona að svo sé ekki, en þetta leysir vandamálið. Ef það er enginn hagvöxtur þá borgum við ekki neitt. Þetta leysir líka vandamálið ef litlar endurheimtur verða á eignum Landsbankans þá borgum við það sama. Þetta gerir það líka að verkum að ef pundið verður mjög verðmikið verður landsframleiðslan á Íslandi lítil mæld í pundum og hámarkið lækkar, þá borgum við minna, færri pund. Það er einmitt það sem þarf að gera því að þá eru líka færri pund fyrir fiskinn okkar og þá fáum við færri pund fyrir álið, þannig að þetta leysir þessi vandamál öllsömul. En það leysir líka önnur vandamál. Ef hér yrði jarðskjálfti eða einhver ósköp, við megum reikna með því líka, við höfum upplifað það í Íslandssögunni, eða þá að það yrði aflabrestur eða eitthvað því um líkt. Þetta er allt saman leyst inni í þessu, því að ef það verður aflabrestur verður hagvöxturinn lítill sem enginn og þá borgum við ekki neitt.

Í grein sem birtist í Financial Times fyrir nokkrum dögum eftir Hudson nokkurn, prófessor, þá segir hann að þetta gæti orðið fyrirmynd í lánum til þróunarríkja. Það skemmtilega við þessa hugmynd er að það er hagur Breta og Hollendinga að á Íslandi sé mjög myndarlegur hagvöxtur þannig að þeir munu vinna að því alls staðar að hér á Íslandi myndist myndarlegur hagvöxtur.

Ég ætla rétt aðeins að koma inn á pólitíkina. Menn hafa oft og tíðum verið mjög bundnir í flokka hér á Alþingi og það er mjög miður að mínu mati. Það gerðist núna að nokkrir þingmenn Vinstri grænna sáu þessar áhættur og vil ég þar nefna Ögmund Jónasson kannski fyrst og fremst. Hann var jafnhræddur við þennan samning og ég er. Þessir þingmenn ásamt með Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Borgarahreyfingunni mynduðu nýjan mjög brothættan meiri hluta á Alþingi, þannig að það náðist að ná fram þessum skynsamlegu tillögum, bæði lagalegum og efnahagslegum, í gegnum þennan nýja, brothætta meiri hluta. Menn lögðu áherslu á að þetta væri ekki flokkspólitískt, þetta væri ekki til þess að fella ríkisstjórnina, þetta væri til þess að bjarga þjóðinni frá þeim áföllum sem gætu komið upp — og ég undirstrika „gætu“ — eftir 20 ár munum við sjá hvort þær koma upp. Ef það kemur upp ætlum við ekki að steypa íslenskri þjóð í ævarandi fátækt.

Þessi brothætti meiri hluti hefur haldið og hann hélt en það var ekki auðvelt og hann var mjög tæpur aðfaranótt laugardags, mjög tæpur, þegar Framsókn gat ekki fallist á þetta og vildi fá frekari hugmyndir. Ég vona að Framsókn komi á seinni stigum inn í þetta aftur. Það má vel vera að það þurfi að skerpa betur á lagalegu fyrirvörunum, það má vel vera að það þurfi að skerpa betur á því hvernig þetta er sett upp í frumvarpinu, og ég skora á alla hv. þingmenn að gera það, að vinna að því að gera þetta skothelt þannig að ríkisábyrgðin gildi eingöngu fyrir árin 2016, 2017, 2018 og svo til 2024 en ekki eftir það, og eingöngu sé miðað við þessi 6% af landsframleiðslu sem við erum að tala um.

Þetta er sem sagt sú staða sem við höfum í dag og nú kann einhver að spyrja: Hvernig stendur á því að Pétur H. Blöndal ætlar að greiða atkvæði með Icesave-samningi, sem var svo mikið á móti þessu alla tíð? Þá kem ég inn á það sem ég nefndi áðan að við breytum ekki fortíðinni. Ég breyti því ekki að hæstv. fjármálaráðherra er búinn að skrifa undir þetta samkomulag. Ég breyti því ekki að hæstv. ríkisstjórn Íslands hafi veitt honum umboð til þess og ég breyti því ekki að stjórnarflokkarnir veittu ríkisstjórninni umboð til að skrifa undir án þess að hafa séð samninginn, hvað þá öll fylgiskjölin sem nú hafa komið upp á yfirborðið og sýna margt mjög skrýtið og undarlegt í þessum samningi. Ég breyti því ekki en ég hlýt alltaf á hverjum einasta tíma að vinna miðað við þá stöðu sem þá er, og núna vinn ég miðað við þá stöðu að það er búið að skrifa undir þennan samning. Það er þarna ákveðinn veikur meiri hluti á Alþingi, mjög viðkvæmur og brothættur, sem getur hindrað það sem verst getur farið. Þess vegna styð ég það. Ef þessi meiri hluti næst ekki fram eða brotnar fara menn að samþykkja eitthvað miklu, miklu veikara. Það getur vel verið að þá geti ég sagt við kjósendur mína: Ja, þessir vitleysingar skrifuðu undir einhvern samning og ég barðist mikið á móti því og þið eigið að kjósa mig, og það getur vel verið að ég fái fleiri atkvæði út á það. En fyrir þjóðina væri það skelfilegt. Ég met það miklu meira að við vinnum hérna að því að finna lausnir á þeim vanda sem þessi samningur og undirskrift hans hefur fyrir íslenska þjóð.

Til dæmis, við getum ekki fellt hann, því að hvað þýðir það? Hvað þýðir það ef við lítum á þetta utan frá með augum almennings úti um allan heim og fjölmiðla og stjórnmálamanna? Það þýðir að ekkert er að marka það sem íslensk ríkisstjórn skrifar undir, það þýðir að Íslendingar ætla ekkert að borga það sem þeim finnst vera sjálfsagt af því að þeir vita ekki betur, við höfum staðið okkur illa í markaðssetningunni, upplýsingunni. Það þýðir líka að lánshæfismat Íslands mundi væntanlega fara enn verr en ella, þannig að það er ekkert val að hafna þessum samningi. Mér finnst það ekki.

Síðan getum við vísað því til ríkisstjórnarinnar, eins og hér er komin tillaga fram um. Mér finnst það heldur ekki trúverðugt að fela sama fólkinu sem skrifaði undir samning að gera aftur samning, mér finnst það ekki trúverðugt og það gæti hugsanlega leitt til stjórnarskipta og ég tel að stjórnarskipti út af þessu máli séu ekki æskileg. Það er ekki æskilegt að koma með enn meiri óreiðu hér á Íslandi, það er ekki það sem við þurfum einmitt núna.

Það er þess vegna sem ég féllst á að gera á þessu breytingar af því að það er eiginlega sú eina lausn sem ég sé í því að leysa þann vanda sem upp er kominn við það að þessi samningur var undirritaður. Þess vegna stend ég að því að greiða atkvæði með þessum breytingartillögum en ekki vegna þess að mig langi endilega til þess og ekki vegna þess að ég haldi að það sé það sem er rétt í stöðunni. Við Íslendingar eigum ekkert að borga þetta. En vegna þeirrar stöðu sem við erum komin í, vegna þeirra raða af mistökum sem gerð hafa verið alveg síðan fyrir hrun erum við komin í þessa stöðu og þá vinnum við út frá þeirri stöðu. Þannig lít ég á það.

Ég er mjög ánægður með þær breytingartillögur sem hér koma fram, sérstaklega efnahagslegu fyrirvarana, ég held að þeir leysi mjög margt, t.d. eins og ég nefndi hér áðan að ef svo ólíklega skyldi vilja til að breskur dómstóll dæmi neyðarlögin ógild, hvað gerist þá? Þá breytast þessi innlán í almennar kröfur á Landsbankann og eignir Landsbankans duga þá til þess að greiða kannski 20% af þessum kröfum. Það þýðir að við þurfum að fara að borga miklu, miklu meira, það er ein af áhættunum í þessum samningi. En hvað þýðir það? Við borgum ekkert meira af því að það sem við borgum er miðað við 6% af landsframleiðslu að hámarki. Við fengjum á þann hátt upp í þessa kröfu og það væru Bretar og Hollendingar sem mundu borga hluta af því tapi, því gífurlega tapi sem yrði hér á Íslandi ef neyðarlögin yrðu dæmd ógild. Það léttir okkur því líka þann róður.

Menn hafa talað dálítið um það hvað gerist árið 2024. Það gerist ekkert annað en að það er ákveðinn samningur í gildi og samningsaðilar setjast niður, þ.e. ef þeir vilja, og þeir ræða um hvað þeir gera við afganginn af kröfunum. Síðan, eins og gengur, það getur vel verið að þeir óski eftir ríkisábyrgð en það er þá Alþingi þess tíma sem tekur ákvörðun um það hvort það kærir sig um að veita ríkisábyrgð. Og af hverju skyldi verða afgangur af láninu, af hverju skyldu verða einhverjar eftirstöðvar? Vegna þess að eitthvað af þeim áföllum sem við erum að tryggja okkur fyrir hafa komið upp og þá munu menn benda samningsaðilum á það: Ja, hagvöxtur varð nú ekki eins mikill og við ætluðum eða: Það greiddist minna af eignum Landsbankans, og þess vegna eigum við ekki að borga meira og munum ekki veita ykkur ríkisábyrgð þó að þið gjarnan vilduð.