137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál fer til fjárlaganefndar á milli 2. og 3. umr. og þar reikna ég með því að menn muni fara mjög ítarlega ofan í þær efasemdir sem t.d. Framsóknarflokkurinn og ýmsir fleiri hafa um það hvort bresk lög og dómstólar viðurkenni stjórnarskrá Íslands. Ég tel að stjórnarskrá Íslands sé hluti af fullveldi Íslands og þá er það spurningin hvort breskir dómstólar ætli sér að fara að efast um fullveldi Íslands.

Hér á Íslandi verður ekki greidd út ein einasta króna, frú forseti, nema fyrir því sé heimild í lögum samkvæmt stjórnarskránni og Hæstiréttur mun dæma það að ekki verði greidd út króna á Íslandi nema það standi í lögum frá Alþingi. Þetta er svar mitt. Þetta þarf að sjálfsögðu að skoða vel. Við þurfum helst að fá fólk sem hefur mikla þekkingu á breskum lögum og hvernig dómstólar þar vinna. Ef það þarf að setja frekari fyrirvara þá setjum við frekari fyrirvara, það er svo einfalt.

Varðandi óbreyttan samning og ekki óbreyttan samning, ég held að menn séu dálítið að tala í kross. Ég held að það sem ríkisstjórnarflokkarnir eru að segja sé að Bretar og Hollendingar muni fallast á þessa breytingu á samningnum. Sérhver takmörkun á ríkisábyrgð er breyting á samningnum, (Gripið fram í.) þannig að ef þeir fallast á það er samningurinn óbreyttur, þá hafa þeir samþykkt þessa breytingu. Mér finnast þessir fyrirvarar — og það var reynt að gera þá þannig — skynsamlegir og sanngjarnir og réttlátir, og (Forseti hringir.) ég tel að Bretar og Hollendingar muni fallast á þetta.