137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir hans ræðu, hún var skynsamleg eins og hans er von og vísa þar sem hann fór í stuttu máli yfir þetta hryllilega Icesave-mál. Eftir því sem maður kynnir sér betur og betur þau gögn sem hægt er að ná með töngum út úr þessari ríkisstjórn sér maður að samningurinn verður verri og verri með hverjum deginum sem líður. Ég sagði það í þingræðu um daginn að ég hafi stundum kallað þetta nauðasamninga, en ég held að það séu ekki nógu stór orð því að þetta eru raunverulega, frú forseti, landráðasamningar. Þar erum við að tala um friðhelgisrétt, þar erum við að tala um verndun náttúruauðlinda okkar o.fl.

Nú ætla ég að koma að því sem ég ætla að spyrja hv. þingmann að. Það fjarar stanslaust undan samningnum eftir því sem ég les hann betur. Ég vil benda hv. þingmanni á grein 6.5 þar sem fyrirsögn þeirrar greinar í breska samningnum: Fallið frá vörnum. Sambærilegt ákvæði er í hollenska samningnum. Grein 6.5 kemur í veg fyrir að íslenska ríkið geti sett fyrirvara á samninginn.

Í gær fór ég í löngu máli yfir ákvæði greinar 13.1.1 í breska samningnum varðandi breska lögsögu og annað, að um leið og búið er að samþykkja samninginn fellur hann í breska lögsögu, því að í gr. 6.5 stendur, með leyfi forseta:

„Aðgerðir, aðgerðaleysi, málefni eða atriði sem mundu, ef ekki væri fyrir þessa málsgrein, draga úr skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt þessari grein, leysa það undan þeim eða hafa áhrif á þær, hafa ekki áhrif á skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt þessari grein.“

Þarna er skýrt að fyrirvararnir verða ekki teknir gildir. (Forseti hringir.) Hver er skoðun hv. þingmanns á þessari túlkun minni?