137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að Alþingi getur eitt sett ríkisábyrgð enda fellur þessi samningur sjálfkrafa úr gildi veiti Alþingi Íslendinga ekki fulla ríkisábyrgð. Þess vegna erum við komin að þeim punkti hvort það sé raunverulega ekki með þeim hætti að þessum samningi verði ýtt hér út af borðinu og að sú leið sem framsóknarmenn leggja til verði farin, þ.e. að þessu máli verði vísað frá og það verði samið upp á nýtt. Því að samningurinn er svo mikill nauðasamningur að hvert einasta orð er vel valið inni í þessu og í raun og veru skil ég ekki hvað þessi samninganefnd var að gera þarna úti að semja við Breta og Hollendinga, eins og t.d. þetta ákvæði að falla frá vörnum. Það sem stendur hér í samningnum er langtum rétthærra en nokkurn tíma þeir fyrirvarar sem búið er að setja við samninginn. Þannig að ef ég dreg þetta saman má alveg segja að sá tími sem við erum búin að vera ræða hér með þessa fyrirvara hafi bara hreinlega verið út í loftið því að samkvæmt grein 6.5 má ekki breyta nokkrum einasta hlut í samningnum því að þá er ábyrgðin ekki skilyrðislaus eins og segir í samningnum. (Gripið fram í.) Það er þessi skilyrðislausa ríkisábyrgð sem málið stendur og fellur með. Það er þessi skilyrðislausa ríkisábyrgð sem Bretar og Hollendingar eru hér að fá út úr Alþingi Íslendinga til þess að þessir samningar taki gildi.

Þess vegna bið ég þingmenn, alla sem einn, sextíu og þrjá, að lesa grein 6.5, lesa alla sjöttu greinina, sem er í mörgum töluliðum, til að kynna sér það hvaða túlkun er í Icesave-samningunum á þeim hugsanlegu fyrirvörum sem á að setja hér — sem hafa ekkert gildi gagnvart samningnum.