137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég býst ekki við neinu öðru en að þingmaðurinn kynni sér fyrirvarana okkar með opnu og jákvæðu hugarfari eins og hans er von og vísa. Við erum ekki alveg sammála eins og gengur og gerist. En það er eitt sem mig langar til að spyrja þingmanninn að og það er að í umræðunni á Alþingi túlka menn þessa fyrirvara með mjög mismunandi hætti. Þingmenn Vinstri grænna t.d. túlka fyrirvarana með mjög mismunandi hætti. Sumir segja að þeir þýði ekki neitt, aðrir að þeir séu sterkir, sjálfstæðismenn segja að þeir felli samningana, samfylkingarmenn segja að þeir rúmist innan samninganna.

Það sem er öruggt í málinu er óvissan og ég spyr þingmanninn hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að við séum stödd í einhvers konar tilraunastarfsemi þar sem við vitum ekki hvernig Bretar og Hollendingar munu bregðast við. Hefur þingmaðurinn ekki raunverulegar áhyggjur? Ég hef þær áhyggjur satt best að segja.