137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gleður mig að heyra þessa afstöðu þingmannsins og ég er þess fullviss að fjárlaganefnd mun á milli umræðna taka málið og fyrirvarana til enn betri skoðunar. Ég heyri að hv. þingmaður hefur ákveðnar hugmyndir varðandi það hvar þarf að styrkja lagalegu fyrirvarana enn frekar og ég hlakka til að fá að sjá þær hugmyndir þingmannsins og er þess fullviss að þær séu málefnalegar og byggðar á þungum lagalegum rökum, enda ekki vanþörf á vegna þess að hér erum við að fjalla um gríðarlega hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Við verðum að stíga varlega niður og það er mjög gott að heyra það frá hv. þingmanni að hann muni alla vega verða til þess að raska þeirri samstöðu sem þó var komin upp varðandi þessa fyrirvara, bæði hina lagalegu og efnahagslegu.