137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:49]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum við 2. umr. frumvarp til laga um heimild til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda frá Landsbanka Íslands hf. Þetta verkefni sem nú liggur fyrir Alþingi og snertir íslensku þjóðina er sjálfsagt eitt stærsta og veigamesta verkefni sem Alþingi Íslendinga hefur komið að. Við erum að fást við afrakstur einkavæðingar bankanna, áhættusækinna bankastjóra og eigenda bankanna sem settu á fót í Bretlandi og Hollandi Icesave-innstæðureikninga með góðum innlánsvöxtum sem fólkið í þessum löndum treysti og lagði inn sparifé sitt. Þegar þetta er gert og þegar til þessara samninga er stofnað er hér við völd ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Sjálfstæðisflokkur hafði frá árinu 1991 til ársins 2002 verið í forsvari ríkisstjórnar, breytt því umhverfi sem m.a. skóp þessa reikninga. Sjálfstæðisflokkurinn ber á því ábyrgð að hafa skapað umhverfið ásamt þeim flokkum sem með honum hafa verið í ríkisstjórn. En Sjálfstæðisflokkurinn ber aldrei, né þingmenn hans eða fyrrverandi ráðherrar eða flokksmenn, ábyrgð á gjörðum þeirra einstaklinga sem fóru með bankana á þann veg sem þeir gerðu. Á því getur enginn borið ábyrgð nema þeir sem þar sátu. Það er kúnstugt, frú forseti, að sitja hér við 2. umr. og hafa setið hér við 1. umr., og hlusta á þingmenn sérstaklega Samfylkingarinnar fara fram hér eins og Sjálfstæðisflokkurinn og hans gerðir undanfarinna ára hafi komið þjóðinni í þau vandræði sem við blasa. Það er á vakt Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem Icesave-reikningarnir verða til. Samfylkingin fór með viðskiptaráðuneytið, hafði stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins þann tíma sem Icesave-reikningar Landsbankans verða að veruleika, hafði alla burði, öll tæki sem þurfti til að sinna eftirlitsskyldu sinni.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins var einn þriggja seðlabankastjóra, bankans sem líka átti að sinna eftirliti. Það er dapurt fyrir flokk sem vill gera sig gildandi í pólitík og náði í síðustu kosningum í fyrsta sinn þeirri stöðu að vera stærsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi að þora ekki að horfast í augu við þær staðreyndir sem við blasa frá stjórnartíð þessa flokks með Sjálfstæðisflokknum frá því í maí 2007 til 1. febrúar 2009. Það er dapurt að ætla að byggja þá ríkisstjórn sem nú er við völd, sem vonandi tekst það ætlunarverk sitt að reisa íslenskt atvinnulíf, styðja við bakið á fjölskyldum í landinu, byggja hér upp nýja banka, að henni takist það ætlunarverk vegna þess að það er íslensku þjóðinni afar mikilvægt. En það er dapurt hlutskipti flokks sem er í forsvari fyrir núverandi ríkisstjórn að þora ekki og vilja ekki horfast í augu við þá ábyrgð sem sá flokkur ber á viðskiptaumhverfinu frá 2007–2009. Við sjálfstæðismenn göngumst við þeirri ábyrgð að við skópum og okkar flokkur það umhverfi. Við frábiðjum okkur hins vegar að bera ábyrgð á gjörðum þeirra einstaklinga sem þar eru og við undrumst ábyrgðarleysi Samfylkingar og undanskot hennar frá ábyrgð.

Við stöndum líka frammi fyrir því að regluverk Evrópusambandsins brást eins og allt annað regluverk. Það er ekkert flókið. En það er líka dapurt að horfast í augu við það að sterkar þjóðir innan Evrópusambandsins og Evrópusambandið allt sem óttaðist á þessum tíma á áhlaup á bankana í Evrópu hafi tekið þá ákvörðun að til þess að koma í veg fyrir slíkt væri leiðin að knésetja íslenska þjóð. Það er óásættanlegt. Þetta eru staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir. Við berum ábyrgð á því sem við berum ábyrgð á og við göngumst við henni en allir verða að gera slíkt hið sama.

Það er óásættanlegt að stórar og sterkar þjóðir í Evrópu skuli vernda regluverkið með þeim hætti sem þær gera og koma íslenskri þjóð í þá stóru nauð, ef við getum sagt sem svo, sem Icesave-samningarnir eru. Það hlýtur að vera skilyrt af hálfu Íslands, íslensku ríkisstjórnarinnar og íslensku þjóðarinnar að verði breytingar á því regluverki sem setur íslenska þjóð í þá stöðu sem hún er í núna með Icesave-samningunum þá sé varnagli fyrir þjóðina til að fá réttlætingu á þeim samningum sem hér blasa við ef til þess kemur að regluverkinu verði breytt. Ég skora á hv. fjárlaganefnd að fara vel yfir þá lagalegu fyrirvara sem eru og setja þennan varnagla inn því sagan mun dæma Breta og Hollendinga og Evrópusambandið allt fyrir þá gjörð þeirra að knésetja íslenska þjóð með þessum samningum vegna brogaðs regluverks. Sagan mun dæma Breta fyrir að setja hryðjuverkalög á starfsemi Landsbanka Íslands og setja Ísland sem eitt sinn var vinaþjóð í hóp með al Kaída og fleiri hryðjuverkamönnum. Það er óásættanlegt og sé alls velsæmis gætt hljóta Íslendingar að krefjast skaðabóta með einum eða öðrum hætti í gegnum þá málsmeðferð sem fram undan er vegna þeirra hryðjuverkalaga.

Það er líka ljóst í þeim samningi sem við stöndum nú frammi fyrir að þátttaka Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er óásættanleg fyrir Íslendinga. Það er óásættanlegt með öllu að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sé beitt með þeim hætti sem honum var beitt gegn Íslendingum og er enn beitt gegn Íslendingum í gegnum stjórn þessa sjóðs, þar sem Bretar, Hollendingar og fleiri þjóðir beita þrýstingi til að koma í veg fyrir lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til Íslands vegna þess að þessar þjóðir vilja knýja Íslendinga til að gangast við svokölluðum Icesave-samningi. Þessi gjörð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hlýtur að verða rannsökuð frekar vegna þess að það er víðs fjarri því upphafi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var stofnaður til að hann eða stjórn hans hagi sér með þeim hætti sem hún hefur gert gagnvart íslensku ríkisstjórninni og gagnvart íslensku þjóðinni. Það ber að skoða.

Í október þegar íslenska ríkisstjórnin leitaði til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, nánar 15. nóvember, var viljayfirlýsing til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins send undirrituð af þáverandi fjármálaráðherra, Árna Mathiesen, og þáverandi seðlabankastjóra, Davíð Oddssyni. Þar kemur skýrt og skorinort fram, með leyfi frú forseta, að Ísland hafi heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingarkerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum. Það kemur jafnframt fram í þessari viljayfirlýsingu að það er ítrekuð sú yfirlýsta stefna stjórnvalda að standa lagalega rétt að uppgjöri gagnvart innstæðueigendum og kröfuhöfum gömlu bankanna og að Íslendingar hyggist virða allar lagalegar, réttarlegar skyldur sínar. Sé ekki samkomulag um það hverjar þær eru sé réttast að vísa slíkum ágreiningi til dómstóla eins og fram hefur komið á öðrum vettvangi.

Frú forseti. Þetta þarf að koma skýrt og skörulega fram. Þar er með öllu óásættanlegt að menn reyni í ljósi sögunnar að segja eitthvað annað en sagan segir. Þetta er algerlega skýrt í viljayfirlýsingu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 15. nóvember 2008.

Það var lögð fram þingsályktunartillaga 5. desember 2008 á Alþingi og sú þingsályktunartillaga fékk þinglega meðferð. Það þekkja flestir álit meiri hluta utanríkismálanefndar um þá þingsályktunartillögu og er hún ítrekuð og vel farið yfir hana á bls. 5 í meirihlutaáliti sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Leiði samningar ekki til ásættanlegrar niðurstöðu fyrir Ísland er það sjálfstætt úrlausnarefni hvernig stjórnvöld og Alþingi vinna úr þeirri stöðu, en hin umsömdu viðmið fela ekki í sér að stjórnvöld afsali sér með einhverjum hætti lagalegri stöðu að þjóðarétti sem ríkið hefur í dag.“

Þetta stendur í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar við þingsályktunartillögu frá 5. desember 2008.

Í tillögunni, frú forseti, kemur einnig fram að endanlegar niðurstöður samninga sem náist í viðræðum verði lagðar fyrir Alþingi til öflunar viðeigandi fjárheimilda eftir því sem aðstæður krefjast.

Frú forseti. Mér hefur þótt í þessari umræðu sem þessum þáttum, þessum greinum í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar frá 5. desember 2008 hafi ekki verið gerð nægjanlega góð skil. Það er líka ljóst, frú forseti, að þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks fór frá völdum og ný ríkisstjórn, minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við 1. febrúar urðu kaflaskil. En þess ber þó að geta að fráfarandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ákvað að leita pólitískra leiða til að semja um það mál sem við nú erum að fjalla um, taldi það vænlegri kost en hún afsalaði sér aldrei eins og kemur fram í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar við þingsályktunartillöguna og staðfest var á Alþingi af meiri hluta þingmanna, þannig að það sé algerlega ljóst. Það verður aldrei of oft sagt því að hér eru margir sem reyna að draga úr því. En samninganefndin sem síðan er skipuð virðist ekki hafa fengið í erindisbréfi sínu vilja meiri hluta Alþingis sem fram kemur um að farið skuli með og horft til þessara þátta. Það er sérkennilegt vegna þess að þetta er sama þingið. Það varð ekki þingrof þegar hér urðu stjórnarslit. Minnihlutastjórnin sat þar til nýjar kosningar fóru fram þann 25. apríl 2009. Þingið var ekki rofið. Þetta er sama þingið. Það er vilji meiri hluta Alþingis sem fram kemur sem ekki fer inn í til samninganefndarinnar sem skipuð var af hæstv. fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni. Það hlýtur að þarfnast skoðunar svo ekki sé meira sagt.

Samninganefndin kemur síðan heim með samning sem hér er að finna þýddan á íslensku, samning við Hollendinga og samning við Breta og það verð ég að segja, frú forseti, að eftir því sem þessi samningur er oftar lesinn vekur hann meiri ugg. (VigH: Rétt.) Kafli 6, Ábyrgð og skaðleysi, er að mínu mati skelfilegur og ég bið hv. fjárlaganefnd sem tekur málið til skoðunar á milli 2. og 3. umr. að fara vel og vendilega yfir þann kafla. Það stendur reyndar í þessum samningi hvort sem okkur líkar það betur eða verr á bls. 47, 13.1 að það sé aðeins heimilt að gera breytingar á samningnum, bæta við hann eða falla frá honum með skriflegu samkomulagi milli samningsaðila. Það er því ljóst að við erum ekki að gera breytingar á samningnum vegna þess að það er ekki hægt nema gera það skriflega við samningsaðila. Þetta verðum við að skoða, frú forseti. Þetta verður að skoða. Þessi kafli, 6. kafli, um ábyrgð og skaðleysi þar sem stendur: „Íslenska ríkið ábyrgist óafturkallanlega og skilyrðislaust“ o.s.frv. er íþyngjandi að öllu leyti fyrir íslenska þjóð og ívilnandi að öllu leyti fyrir viðsemjendur okkar, Breta og Hollendinga. En það er með þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar eins og sum önnur þegar þau koma hingað inn til umsagnar þá eru þau vanbúin en hljóta í meðferð þingsins þolanlegar breytingar.

Frumvarpið sem hér kom inn var beiðni um fulla ríkisábyrgð á þeim samningum sem við fjöllum hér um, fulla samningsábyrgð, fulla ríkisábyrgð á öllu. Þegar í ljós kom að það myndaðist nýr meiri hluti á Alþingi, ekki stjórnarmeirihlutinn heldur nýr meiri hluti á Alþingi til að skoða þessa ríkisábyrgð frekar, setja þar inn lagalega fyrirvara, setja inn ekki síst efnahagslega fyrirvara vegna þess að það var ljóst að íslensk þjóð gat aldrei staðið við þær skuldbindingar sem samningurinn sagði til um og frumvarpið frá hæstv. ríkisstjórn óskar eftir ríkisábyrgð á — það var kristaltært, við gátum það ekki nema fara margfræga leið vinstri manna að hækka skatta, endalaust að hækka skatta og sú töfralausn vinstri manna í að bjarga efnahagsmálum, að hækka skatta, hefði ekki einu sinni dugað til, frú forseti. Hún hefði ekki dugað til, því miður.

Það þarf líka að kanna, frú forseti, vegna þess að ég er ekki sannfærð þó sumir hér inni geti verið það, ég er ekki sannfærð um hvort og hvenær í þessu ferli öllu lögsaga íslenskra dómstóla víkur fyrir breskum lögum. Mér er það ekki ljóst. Það er að mínu viti stór áhættuþáttur í þessu regluverki öllu sem við vinnum við.

Frú forseti. Frumvarpið hefur skánað. Nýr meiri hluti á Alþingi, meiri hluti stjórnarandstöðu og hluta stjórnarsinna lögðu í þá vegferð að koma með og hnykkja á lagalegum fyrirvörum, efnahagslegum fyrirvörum. Það eru þeir fyrirvarar sem við reiknum með að geri íslenskri þjóð þessa þætti sem við stöndum frammi fyrir bærilega, hvorki meira né minna heldur en bærilega. Þeir eru ekki ásættanlegir. Það þarf að ganga lengra en frumvarpið er skárra og bærilegra heldur en það var í framsetningu ríkisstjórnarinnar.