137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:11]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir þessa spurningu. Ég óttast þennan kafla í samningnum, sem ber yfirskriftina Ábyrgð og skaðleysi. Ég er ekki löglærð en mér finnst þessi kafli í samningnum vera svo skilyrtur og íþyngjandi fyrir íslenska ríkið sem ábyrgðaraðila á þessum samningi að ég óttast að lagaklækir geti hugsanlega með einhverjum hætti beitt þessum kafla til þess að koma aftan að íslenskri þjóð og íslensku ríkisstjórninni.

Hins vegar eru þeir fyrirvarar, þeir efnahagslegu fyrirvarar sem fjárlaganefnd er að gera, algjörlega skilyrtir til að alþingismenn á Alþingi Íslendinga íhugi að veita þá ríkisábyrgð sem beðið er um. Þeir eru skilyrði. Án efnahagslegu fyrirvaranna og þó þeirra lagalegu fyrirvara sem eru, án þeirra er algerlega óásættanlegt að íhuga að veita ríkisábyrgð.