137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ríkisábyrgðin er skilyrt eins og við vitum. Það er ekki bara það að ekki megi setja fyrirvarana inn í samningana svo þeir standi heldur er öllum þeim fjárhæðum sem um er rætt í efnahagslegu fyrirvörunum rutt burtu með grein 6.7. Og ekki nóg með það heldur fara Bretar og Hollendingar fram á viðbótartryggingu samkvæmt grein 6.8 í samningunum. Það er með ólíkindum að einhver íslenskur einstaklingur hafi skrifað undir þessa samninga. Ég hef aldrei séð aðra eins nauðung og felst í þessum samningum.

Varðandi ábyrgð og skaðleysi, grein 6.2, þá ætla ég að lesa a-lið, með leyfi forseta, en þeir eru þarna í a-, b- og c-liðum:

„Íslenska ríkið ábyrgist óafturkallanlega og skilyrðislaust gagnvart lánveitanda að Tryggingarsjóður innstæðueigenda muni standa á tilhlýðilegan hátt og á réttum tíma við allar skuldbindingar sínar samkvæmt þeim fjármálaskjölum sem hann er aðili að.“

Í lið b er eins. Í gegnum kafla 6 í samningunum koma þessi orð fyrir trekk í trekk nánast í hverri einustu grein, „óafturkallanlega og skilyrðislaust“ sem segir það að fyrirvararnir geta ekki tekið gildi samkvæmt þessum samningi.

Svo langar mig að spyrja hv. þingmann í af því að hún minntist á grein 13.1.1 í bresku samningunum að það sé einungis heimilt að gera breytingar, bæta við þá eða auka við með samþykki og undirskrift beggja aðila. Finnst hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur ekki kominn tími til að þessi ríkisstjórn fari að lufsa upp um sig buxurnar og fari að tala við Breta og Hollendinga um hver þeirra skilningur er á þeim fyrirvörum sem liggja fyrir?