137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var mikilvægt þetta síðasta sem kom fram að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er ekki sammála varaformanni fjárlaganefndar, Birni Vali Gíslasyni, þannig að það er mikilvægt að það komi fram. Engu að síður er það ljóst af minni hálfu að það er ákveðin óvissa í málinu eftir málflutning ekki bara hv. þingmanns Björns Vals Gíslasonar heldur líka hvernig ráðherrar í ríkisstjórn hafa verið að verja þá fyrirvara sem um ræðir, því að við teljum að þessir fyrirvarar snúist í rauninni um það að verið er að kollvarpa samningnum eða drögunum í kringum ríkisábyrgðina og af hverju ekki að segja það hreint út? Við munum aldrei eyðileggja stöðu okkar gagnvart Hollendingum og Bretum með því að segja það einfaldlega hreint út og menn eiga ekkert að vera viðkvæmir fyrir því að segja hlutina eins og þeir einfaldlega eru.

Við sjálfstæðismenn munum að sjálfsögðu standa við okkar samkomulag en ég vil líka að sjálfsögðu undirstrika að það voru ríkisstjórnarflokkarnir með stuðningi Borgarahreyfingarinnar eða þess hluta sem eftir er af henni sem tóku málið út úr fjárlaganefnd. Það var ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem tók málið út úr fjárlaganefnd né Framsóknarflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sagt að við munum styðja við þá fyrirvara og þær breytingar sem fyrir liggja og við áskiljum okkur rétt til þess að styðja aðrar góðar tillögur sem verða til þess að efla málið og styrkja.

Ég er líka sammála því að það hafa mörg mistök verið gerð við málið, einnig af hálfu fyrri ríkisstjórnar, en sá samningur sem um ræðir eru stór mistök núverandi ríkisstjórnar. Það þýðir ekki alltaf að vera að segja: Forsaga málsins var þessi. Við vitum það, þar voru mörg mistök gerð og ábyrgðin er margra þar. Við erum að ræða um nútíðina og nútíðin er þessi vondi samningur sem er verið að reyna að laga til þess að styrkja stöðu Íslendinga. (Forseti hringir.) Ég vil sérstaklega draga fram að það er gott að ákveðin samstaða náðist innan fjárlaganefndar en þá verður sú samstaða að halda og það er mjög vont þegar varaformaður fjárlaganefndar kemur fram með þeim hætti sem hann gerði hér í morgun.