137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er þjóðarnauðsyn að við náum samstöðu um þetta mál allt saman. Það er líka mikilvægt að draga það fram sem hv. þingmaður sagði áðan og ég tel mikilvægt innlegg í þessa umræðu að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson telur breytingarnar sem fjárlaganefnd hefur gert vera efnismiklar breytingar. Mér finnst það vera stærri orð og sterkari en t.d. formaður hans og hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt sjálfur. Mér finnst skipta máli að það komi fram að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson telur þetta vera efnismiklar breytingar sem fjárlaganefnd hefur sett fram. En engu að síður er verið að reyna að setja þær breytingar í annað ljós. Þetta þarf fjárlaganefnd að skýra, þetta þarf fjárlaganefnd að fara mjög vel yfir til þess að við getum staðið hér keik við það samkomulag sem gert var um þær breytingar sem um ræðir.

Varðandi síðan hitt, að Hollendingum og Bretum átti að vera ljóst að ríkisábyrgðin tæki hugsanlegum breytingum, er gott að það komi fram að við erum sama sinnis, að þing, sama hvaða þjóðþing um ræðir, má aldrei verða að stimpilstofnun fyrir ríkisvaldið, það er fyrir ríkisstjórnir þegar kemur að jafnstórum málum og þessu. Hollendingum og Bretum mátti vera ljóst að þetta mál mundi taka gagngerum breytingum hér innan húss, ekki síst þegar maður horfir yfir salinn og veit að það er nú ekki beint skoðanalaust fólk hér inni á öllum málum. Mönnum átti því að vera það ljóst, okkar viðsemjendum átti að vera það ljóst að þingið tæki þetta mál í sínar hendur og mundi kollvarpa því og það erum við að gera.