137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ræðu hennar og taka undir það sem kom fram hjá henni að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa unnið mjög heilt að þessu máli, unnið mjög vel í fjárlaganefnd og við höfum átt afar gott samstarf um að leita lausna á þessu mikilvæga máli og þar hafa þessir aðilar lagt sig fram um að reyna að ná sátt. Það var lagt af stað með þetta mál strax af minni hálfu sem formanns fjárlaganefndar að reyna að ná sátt. Ég taldi það vera mikilvægt að við mundum í sameiningu reyna að eyða þeirri óvissu sem hafði skapast einmitt út af ýmsum athugasemdum sem borist höfðu varðandi það samkomulag sem gert hafði verið. Ég er enn þá þeirrar skoðunar að það skipti mjög miklu máli að við skiljum ekki við þetta mál í óvissu.

Við tókum einnig afstöðu til þess mjög fljótt að Alþingi væri ekki stimpilstofnun, eins og hér kom fram, fyrir einhverja ríkisábyrgð. Það væri klárt í samningnum að það þyrfti ríkisábyrgð og það væri okkar að skilgreina þá ríkisábyrgð, setja þá fyrirvara sem okkur finnst skipta máli og þar ræddum við líka hvort við ættum að fara og leita til gagnaðilanna og spyrja þá hvað okkur væri leyfilegt. Niðurstaðan var sú að við mundum ekki gera það vegna þess að við töldum mikilvægt að Alþingi héldi sínu sjálfstæði og sínum rétti og segði sína skoðun og það yrði svo að láta reyna á það í framhaldinu hvort viðkomandi aðilar sættu sig við það en þar hefði talað þjóðþing Íslendinga sem réði ríkisábyrgðinni og væri aðili að málinu.

Fyrirvararnir sem settir voru voru allir settir í trausti þess að þeir hafa mikið vægi og mikið gildi og skipta mjög miklu máli fyrir þjóðina þannig að það eru engir sýndarfyrirvarar. Það er ekki verið að reyna að fela neitt eða búa neitt í haginn öðruvísi en það að við teljum að það skipti mjög miklu máli að taka af og viðhalda ákveðinni lagatúlkun sem við höfum haldið í málinu frá upphafi, setja aðra fyrirvara eins og varðandi skipti á búi og svo setja efnahagslega fyrirvara sem verja okkur fyrir því að ekki sé gengið mjög hart að íslensku þjóðinni í þessu ferli. (Forseti hringir.) Þetta er sameiginlegur skilningur allra þeirra sem stóðu að þessu í fjárlaganefnd og ég held að það skipti mjög miklu máli að við höfum þá sameiginlegu túlkun og við munum auðvitað beita okkur fyrir því í 3. umr., eftir að hafa fjallað um þetta við 2. umr., að sú túlkun komi skýrt fram.