137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:18]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svörin. Ég verð að segja að ótti minn varðandi það að fyrirvararnir standist ekki fyrir breskum dómstólum er, held ég, aðeins meiri en hennar þar sem ég hef sett mikla fyrirvara við þessa fyrirvara.

Aðrir þingmenn í sama flokki hafa talað mikið um að þegar dæmt verði í þessu máli verði vísað til íslensku stjórnarskrárinnar. Það væri áhugavert að heyra frá þingmanninum hvort hún viti til þess að íslenska stjórnarskráin hafi eitthvert lagagildi fyrir breskum dómstólum og þá einnig, miðað við þá reiði sem kom upp hérna í þingsal við orð hv. þingmanns Björns Vals Gíslasonar, hvernig stendur þá á því að menn sætta sig við það að það sé ekki bara hann sem er að segja að samningurinn sé óbreyttur heldur séu það líka forustumenn stjórnarflokkanna sem hafa (Forseti hringir.) ítrekað sagt í fjölmiðlum að samningurinn sé óbreyttur og þessir fyrirvarar rúmist innan samningsins.