137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:57]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur mikið verið talað í umræðunni hérna um mikilvægi samstöðu og ég gæti trúað því að það næðist kannski samstaða um þetta atriði, að setja svona varnagla við fyrirvarana þannig að það væri algjörlega skýrt að það væru ekki eingöngu við sem skildum þessa fyrirvara á sama hátt, þ.e. þeir 63 þingmenn sem sitja hérna á Alþingi Íslendinga, heldur einnig Bretar og Hollendingar. Það hefur margítrekað komið fram á þeim tveimur mánuðum sem við höfum verið að fjalla um þessa samninga að menn hafa misskilið þá fram og til baka og eins og kom fram í tilvitnun í hv. þingmanns, varaformann fjárlaganefndar, virðast menn enn þá vera á fullu að misskilja þessa samninga.

Það sem ég hef hins vegar mestar áhyggjur af varðandi ummæli hv. þingmanns og slæ minn eigin varnagla á það hvort við mundum ná þessari samstöðu um gildistöku ríkisábyrgðarinnar er það að forustumenn stjórnarflokkanna hafa tekið undir orð þingmannsins. Þeir hafa fullyrt að um sé að ræða óbreyttan samning, nákvæmlega eins og varaformaður fjárlaganefndar sagði í ræðu sinni. Hann er að vísu ekki eini fulltrúi Vinstri grænna sem hefur komið hér upp í umræðunni og fullyrt þetta, mér skilst að hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir hafi líka sagt það í sinni ræðu. Getur verið að þetta sé viðhorf þeirra gagnvart þessu, að um sé að ræða óbreyttan samning þannig að það sé bara verið að slá ryki í augun á okkur með því að samþykkja þessa fyrirvara?