137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki trúa því að það sé þannig. Ég hlustaði hér á hv. þm. Lilju Mósesdóttur í gær og þingmaðurinn virkar yfirleitt mjög einlæg í því sem hún er að gera, en hún virkaði ekki mjög einlæg í því þegar hún sagði að þetta væri sami samningurinn og að það væri verið að staðfesta samninginn, vegna þess að við mundum standa við skuldbindinguna ef efnahagsþróunin væri þannig. Og vonandi verður efnahagsþróunin þannig að við getum staðið við allt, en við vitum alveg hvernig það er.

Þá sagði hún: Þá gerist það bara ef þeir sætta sig ekki við þetta, þá fella þeir bara samninginn. Hún skilur það því alveg, hv. þm. Lilja Mósesdóttir, ég held að hún skilji nákvæmlega hvað í þessu felst, og ég held að aðrir þingmenn stjórnarflokkanna skilji það líka (Gripið fram í.) með einstaka undantekningum. En ég tek undir með hv. þingmanni að það veldur mér áhyggjum hvernig talað er um þetta. Ég held að það sé ákveðinn glannaskapur fyrir hæstv. ráðherra og hv. þingmenn að fara út með þessi skilaboð því eins og margoft hefur komið fram í umræðunni er allt sem við segjum hér þýtt, það er farið með það beint til viðsemjenda okkar og erum við einhverju bættari með það að viðsemjendur okkar haldi að við séum að standa við samninginn, að þetta sé nákvæmlega sami samningurinn? Ég held ekki.

Ég tek undir með þingmanninum að það sé mikilvægt að allir skilji þetta, þannig að ef við getum náð samstöðu um þennan varnagla við fyrirvarana held ég og tek undir með hv. þingmanni að það væri í raun mikil blessun því þá gætum við kannski lokið þessu máli þannig að við værum öll sátt við það og við værum sátt við þá túlkun af því að það er bara ein túlkun.

Frú forseti. Ég sá að starfandi varaformaður fjárlaganefndar rak nefið hér inn þannig (Forseti hringir.) að — ég hef ekki tekið eftir því að orð mín um það að fá hingað í salinn fleiri stjórnarliða hafi haft mikil áhrif, en ég ítreka (Forseti hringir.) það sem ég sagði hér áðan að mér finnst það mikil óvirðing við þetta stóra mál og við okkur þingmenn að þetta fólki sitji ekki hér og fer fram á að þau komi hingað og sérstaklega hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson.