137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:22]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ræðuna. Mér fannst sérstaklega athyglisvert að hlusta á lokaorð hv. þingmanns þar sem hann var að tala um mikilvægi þess að við mundum vanda til vinnunnar.

Nú er það þannig, og ég held að öll þjóðin geri sér grein fyrir því, að það var verið að vinna þessa fyrirvara að nóttu til og menn voru orðnir mjög þreyttir og höfðu lítið sofið. Hefði ekki verið eðlilegra að eftir að menn höfðu komist að einhverri ákveðinni niðurstöðu þá hefðu þeir þakkað fyrir sig, farið heim, sofið aðeins og síðan hist aftur daginn eftir og kallað til einhverja sérfræðinga í breskum lögum? Þá hefðum við kannski haft það á hreinu áður en við fórum í 2. umr. hvort þeir fyrirvarar sem eru í breytingartillögum meiri hlutans gilda eða ekki, hvort þeir hafi eitthvert gildi og hvort ekki megi segja að þau vinnubrögð sem voru þarna hafi eiginlega verið mjög gott dæmi um það hvernig hefur verið unnið í þessu Icesave-máli frá upphafi, að menn hafi aldrei gefið sér tíma til þess aðeins að hægja á sér og skoða hvað menn voru að gera. Við erum við 2. umr. að þræla okkur í gegnum hvað við erum virkilega að tala um og það hefur þegar komið fram í dag að menn teldu kannski eðlilegt að setja þyrfti einhvers konar varnagla við fyrirvarana um ríkisábyrgðina. Í gær var talað um að það þyrfti að skýra í efnahagslegu viðmiðunum hvað ætti að gera með eftirstöðvarnar og það væri algerlega skýrt að við sæjum fyrir okkur að ef einhverjar eftirstöðvar væru í lok lánatímabilsins þá mundu þær falla niður.

Við framsóknarmenn höfum líka lagt fram tillögur varðandi það að setja inn skuldaviðmiðun hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og um vaxtagreiðslurnar. Þetta er eitthvað sem ég tel að ef við hefðum aðeins leyft okkur að anda og sofa þá hefðum við kannski haft þetta í breytingartillögum meiri hlutans og staðið öll að þeim frekar en eins og gerðist þegar menn voru að flýta sér allt of mikið.