137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður nefndi Indefence-hópinn vildi ég nota tækifærið, þar sem ég gerði það ekki í ræðu minni, og þakka öllu því fólki fyrir það góða starf sem sá hópur hefur unnið. Ég tek undir með formanni Sjálfstæðisflokksins sem sagði að við stæðum í mikilli þakkarskuld við allt þetta fólk sem lagt hefur á sig gríðarlega vinnu og hefur í rauninni velt þyngra hlassi en við í stjórnarandstöðunni til þess að sýna fram á það að eins og málið var lagt upp stóðst það ekki, það er nú bara þannig.

Spurning hv. þingmanns um það hvort við ættum að fá breska lögfræðistofu til þess að fara yfir þann þátt málsins sem hann nefndi, svarið er mjög einfalt: Já. Einhverjir dagar til eða frá skipta ekki máli. Það er mjög dýrt að versla við breskar lögfræðiskrifstofur, en það er þess virði í þessu stóra máli. Við komum saman 1. október, ég veit ekki hvenær þessu þingi lýkur, það er ekki aðalatriðið, það er of mikið undir. Við eigum hins vegar að skipuleggja okkur þannig að við getum nýtt tímann sem best. Hv. þingmaður nefndi það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur talað um, að kynna málstað okkar fyrir öðrum þjóðum, það er mjög mikilvægt. Ég hef gert það sjálfur, ég hef talað við þá þingmenn sem ég er í góðu sambandi við, t.d. í Noregi og Bretlandi, og ég tek undir með hv. þingmanni að þar eru aðilar ekki inni í málum, og ég held að það sé ein ástæðan fyrir því að vinaþjóðir okkar tala eins og raun ber vitni að þetta er auðvitað ekki stærsta málið þar. Ég var t.d. að tala við félaga minn í norska þinginu og hann sagði að það væri mikill skilningur á málstað (Forseti hringir.) Íslendinga meðal almennings í Noregi þrátt fyrir að sú ríkisstjórn sem núna situr sé að gefa okkur mjög sérkennilegar skeytasendingar.