137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður lýsti því ágætlega hvernig menn vinna í spunaverksmiðjum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, því að það er nákvæmlega svona sem þetta er gert, reynt að búa til pressu, búa til einhverja stöðu. Hverjum dettur í hug að það sé mikilvægt að ljúka þinginu á morgun? Hvað kallar á það? Nákvæmlega ekki neitt.

Varðandi sérfræðiþekkingu mína á Samfylkingunni þá er það þannig að Samfylkingin er með tvo guði. Það er annars vegar Evrópusambandið og hins vegar Capacent Gallup. Það liggur alveg fyrir að hún stjórnast af þessu tvennu. Það eina sem truflar Samfylkinguna í þessu máli sem er keyrt í gegn til þess að komast í ESB — ég held að Samfylkingin trúi því að það lagist allt ef Ísland fer í ESB, það verður mikla betra veður hérna á flestum stöðum og þetta verður hin mesta himnasending fyrir okkur öll. — (Gripið fram í.) Það er bara almenningsálitið sem getur stoppað þá í því að keyra mál hratt í gegn.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi að það væri verið að setja pressu á okkur stjórnarandstæðinga að við munum tefja málið þá lýsi ég því hér yfir að ég er tilbúinn að tefja málið og menn geta kallað mig hvað sem er. Ég ætla ekki að fara héðan án þess að vera búinn að gera allt það sem ég get til þess að ganga þannig frá málinu að það sé eins skothelt og það getur orðið. Ef það þýðir að ég þurfi að halda gríðarlega margar ræður hér þá mun ég halda gríðarlega margar ræður hér. Ég mun gera allt til að sjá til þess að þetta verði unnið eins vel og mögulegt er og ég hvet alla þingmenn til þess að nálgast þetta verkefni með sama hætti.