137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:58]
Horfa

Þór Saari (Bhr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er með nokkrar spurningar til hv. þm. Helga Hjörvars. Sú fyrsta er hvert sé álit hans sem formanns efnahags- og skattanefndar á vinnu þess þverpólitíska hóps sem samdi efnahagslegu fyrirvarana og hvort hann sé sammála því að Icesave-málið hafi verið tekið of snemma út úr efnahags- og skattanefnd og nefndin hafi í rauninni brugðist hlutverki sínu, sérstaklega þegar haft er í huga að efnahagslegu fyrirvararnir sem nú eru komnir inn í lögin voru samdir af minni hluta efnahags- og skattanefndar ásamt stjórnarliðum m.a. úr viðkomandi nefnd.

Önnur spurning mín er hvort hann sé sammála því áliti Björns Vals Gíslasonar, hv. varaformanns fjárlaganefndar, sem fram kom í morgun í ræðu hans að öll vinnan sem unnin hefur verið í málinu meðan hann sjálfur var í fríi hafi í raun verið óþörf og jafnvel tilgangslaus.

Þriðja spurningin er hvert sé álit hans á því að bæta inn fyrirvara sem kveður ótvírætt á um að ríkisábyrgðin taki ekki gildi fyrr en Bretar og Hollendingar hafa viðurkennt fyrirvarana ef slíkur fyrirvari gæti orðið til þess að yfirgnæfandi meiri hluti styddi frumvarpið.