137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu en hún olli mér miklum áhyggjum. Hv. þingmaður talaði vel og var að reyna að tala um samstöðu og að lægja öldur, en það er ákveðið viðhorf sem mér fannst skína svo í gegn sem ég held að hafi einkennt allt þetta mál, þ.e. að ábyrgðin sé öll okkar. Það liggur alveg fyrir að við Íslendingar berum ábyrgð en í þessu einstaka máli er um Evróputilskipun um innstæðutryggingar fyrir alla álfuna að ræða. Það var aldrei hugsað þannig að þetta ætti að nýtast í bankahruni, í kerfishruni. Þegar menn tala um eitt svæði, eitt markaðssvæði, Evrópska efnahagssvæðið, er hvorki skynsamlegt né sanngjarnt eða eðlilegt að þegar slíkt kerfishrun verður að ein smáþjóð þurfi að taka það allt saman á sig.

Ég spyr hv. þingmann: Finnst hv. þingmanni ekki vera neitt að þessu evrópska reglugerðakerfi (Forseti hringir.) eða túlkun viðsemjenda okkar á því?