137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefur ekki hlustað vel á ræðu mína ef hann taldi það vera orð mín að við bærum alla ábyrgðina. Ég sagði þvert á móti að það væri auðvitað alveg ljóst að við gerðum það ekki, þar væri um að ræða gallað regluverk eins og hv. þingmaður vék að. Auðvitað er líka um að ræða ábyrgð af hálfu Breta og Hollendinga, það er auðvitað mikil ábyrgð í því fólgin að hafa beitt á okkur hryðjuverkalögum. Það var auðvitað ábyrgð í því fólgin að koma að starfsemi þessara útibúa í Hollandi og Bretlandi þar sem ákveðnir þættir voru á hendi viðkomandi landa. Með ýmsum öðrum hætti deila aðrir ábyrgðinni. Þess vegna er það eðlileg krafa okkar að alþjóðasamfélagið og viðsemjendur okkar sérstaklega hafi skilning á því að um leið og við öxlum þessar miklu skuldbindingar og þessa miklu ábyrgð þurfum við auðvitað setja við henni skýra fyrirvara sem gera það að verkum að tryggt sé að við getum risið undir þeim, vegna þess að (Forseti hringir.) ábyrgð okkar í þessu efni er alls ekki einhlít.