137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðustu staðhæfingu hv. þingmanns rifja ég það upp að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sagði af sér embætti sem viðskiptaráðherra. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður kallar það, sumir kalla það að axla ábyrgð. En ég var einungis að leggja út af ræðu hv. þingmanns. Hv. þingmaður sagði berum orðum að þann harmleik sem felst í Icesave mætti rekja til einkavæðingar ríkisbankanna. Þá hljótum við að grafast fyrir um það hverjir það voru sem einkavæddu ríkisbankana. Ja, ekki var það Alþýðubandalagið gamla, ekki var það Alþýðuflokkurinn gamli. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að innan Alþýðuflokksins gamla voru uppi raddir, það voru sterkir stjórnmálamenn þar á ferli sem vildu einkavæða ríkisbankana. En ég segi hv. þingmanni það — hún getur bara skoðað það í þeim heimildum sem fyrir liggja — að það frumvarp sem á sínum tíma var boðað í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokksins kom aldrei fram. Hvers vegna? Vegna þess að það var stoppað af sterkri andstöðu í þingflokki Alþýðuflokksins og reyndar í flokknum sjálfum. Um þetta var haldinn sérstakur flokksstjórnarfundur þar sem málinu var hafnað. Komum þá að því hverjir það voru sem hrundu af stað harmleiknum sem hv. þingmaður talar svo um og segir sjálf að megi rekja til einkavæðingar ríkisbankanna. Hvaða flokkar voru það sem gerðu það? Ja, hv. þingmaður getur svarað því, ég þarf ekki að svara því fyrir hana.

Á sínum tíma var talað um það í þessum þingsölum að einkavæðingu bankanna ætti að gera með því að hafa mjög dreift eignarhald. Ýmsir þá, þar á meðal ég, freistuðust til að telja að það væri rétt aðferð. En eins og menn muna voru það þáverandi stjórnarflokkar sem skyndilega, svo að segja á einni nóttu, féllu frá því og afhentu bankana vildarvinum sínum. Og ég spyr hv. þingmann: Kannast hún við hvaða tveir flokkar þetta voru?