137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Reiði þjóðarinnar í garð þeirra sem knésettu þjóðina í bankahruninu sl. haust hefur kristallast í réttlátri reiði gagnvart þeim kalda veruleika að þjóðin og komandi kynslóðir þurfi að borga Icesave-reikningana ásamt öðrum skuldaklöfum sem þjóðin þarf að bera og lakari lífskjörum næstu árin. Vegna vítaverðs gáleysis og græðgi íslenskra fjárglæframanna er þessi staða komin upp. Ekki er ábyrgð íslenskra stjórnvalda sl. áratug minni. Stjórnvöld sem létu glepjast af loftbólufimleikum íslenskra útrásarvíkinga og höfðu einkavætt bankakerfið án þess að tryggja þjóðinni traust fjármálaeftirlit, án þess að vilja aðskilja einkabanka og fjárfestingarbanka og neituðu að viðurkenna að svo miklir brestir væru komnir í bankakerfi landsins þó að aðvörunarbjöllur hringdu alls staðar.

En núverandi ríkisstjórn fékk þetta ógæfumál í vöggugjöf til að leysa. Fyrir lá að fyrri ríkisstjórn hafði samþykkt að ganga til samninga við Breta og Hollendinga um Icesave-reikningana og falla frá því að láta reyna á lagalega skuldbindingu þjóðarinnar. Það lá strax fyrir að ekki yrði auðvelt að ná samningum í þessu erfiða máli og engar líkur væru á að þjóðin mundi fagna niðurstöðu í málinu þar sem hún mundi alltaf þýða miklar skuldabyrðar á íslenska þjóð. Samninganefndin vissi hvað var í spilunum þegar hún tók við af fyrri samninganefnd og vissi að mikilvægt væri að ná árangri. Það tókst þótt alltaf megi segja um alla samninga að betur megi gera. En það þarf tvo til og að lokum verða samningsaðilar að mætast á forsendum beggja. Niðurstaða samninganna var kynnt þjóð og þingi og tryggði þjóðinni sjö ára skjól frá greiðslu Icesave-reikninganna sem skiptir miklu máli fyrir endurreisn efnahagslífsins og getu okkar til að rísa undir þeim skuldum sem við höfum ábyrgst að axla en um leið til að endurheimta virðingu okkar og traust í samfélagi þjóðanna.

Í meðförum fjárlaganefndar hefur verið leitast við að ná breiðri samstöðu og ég tel það mjög mikilvægt, breiðri samstöðu um efnahagslega fyrirvara við ríkisábyrgðina og lagalega fyrirvara án þess að taka upp samninginn eða að fella hann. Greiðslubyrði þjóðarinnar er tengd hagvexti landsins og skuldaþoli. Ef enginn hagvöxtur verður þá verður ekki greitt af lánunum auk þess sem gengisþróun mun ráða því hvernig greiðslurnar verða. Fyrirvararnir tryggja stöðu Íslands betur í endurreisn samfélagsins sem fram undan er. En nú er mál að linni í þessari umdeildu deilu. Afgreiðsla þess má ekki dragast lengur. Allt endurreisnar- og uppbyggingarstarf er undir og nú verða allir sem einn að koma að því verkefni sem bíður allra landsmanna, þ.e. að endurheimta orðspor þjóðarinnar, að reisa nýtt samfélag sem byggist á heiðarleika, samábyrgð og réttsýni. Ef okkur tekst það eru okkur allir vegir færir og við getum litið um öxl, stolt til baka og sagt að þær náttúruhamfarir af manna völdum sem við gengum í gegnum beygðu okkur aðeins tímabundið en brutu okkur ekki niður sem fullvalda, sjálfstæða og stolta þjóð utan Evrópusambandsins.