137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Í umræðum í þingsal í gær fundu þingmenn upp nýtt hugtak, hugtakið „ljósberi vonar“. Mér hefur oft þótt hv. þm. Ásmundur Einar Daðason vera ljósberi vonar í stjórnarflokkunum og það hefur ekkert breyst við ræðu hans nú. Þeir eru raunar fleiri, ekki hvað síst hæstv. heilbrigðisráðherra, þannig að ég bind miklar vonir við að hv. þingmaður og hæstv. ráðherra muni áfram fylgja því sem þeir hafa gert fram að þessu og vinna þetta mál eftir sannfæringu sinni og með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Ég er reyndar viss um að þeir gera það.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki tekið undir það með mér að það sé lágmark í starfi nefndarinnar, þegar málið fer aftur til fjárlaganefndar að lokinni þessari umræðu, að nefndin leiti eftir áliti sérfræðinga í enskum lögum á þeim fyrirvörum sem lagðir hafa verið fram og hvort þeir komi til með að standast og þá á hvaða hátt til þess að eyða þeirri gríðarlegu óvissu sem hefur skapast í málinu.

Það var mér mikill léttir að heyra hv. þingmann staðfesta að hann mundi ekki styðja málið nema það væri alveg á hreinu að fyrirvararnir héldu. Þurfum við þá ekki einmitt að leita eftir ráðgjöf um það frá þeim sem þekkja þau lög sem um er að ræða, ensk lög, hvort fyrirvararnir komi til með að halda?