137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þekkjum það náttúrlega að vinnubrögðin hafa verið með þeim hætti að verið er að koma þeim skilaboðum til aðila að búið sé að ná samningum um hitt og þetta. Sjálfstæðismenn hafa fengið fregnir af því að Framsókn sé búin að semja við stjórnarliða um einhverja hluti (Gripið fram í: Nú!) og öfugt en það er ekki þannig. Það skiptir afskaplega miklu máli að gott samstarf sé milli allra flokka og þá sérstaklega stjórnarandstöðuflokkanna og ég held að markmiðin séu algerlega hin sömu. Það er ekki búið að ganga frá einu eða neinu milli Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarflokkanna í málinu.

Við skulum ekki gleyma því, virðulegi forseti, og það má vel vera að hv. þm. Birkir Jón Jónsson og jafnvel sá sem hér stendur séum vanir því að vera í meiri hluta en við erum það bara ekki. (Gripið fram í.) Í Reykjavík jú, jú, rétt, en það bindur hendur manna nokkuð að vera ekki í meiri hluta. Það snýst um hvernig menn reyna að hafa áhrif á mál og í þessu tilfelli þetta mikilvæga mál. Við erum báðir sammála um það, ég og hv. þingmaður, enda hefur það komið fram hjá honum að búið er að gerbreyta málinu. Stjórnarandstaðan er búin að gerbreyta málinu. Það er gríðarlega stór sigur, eitt og sér, þó svo menn þurfi að ganga lengra eins og menn hafa rætt. En þingmeirihluti er fyrir núverandi ríkisstjórn, það er bara þannig. Það eru þeir sem stýra málinu, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og þá er spurningin hvaða aðferðum er best að beita til að hafa áhrif á mál og í þessu tilfelli er það afskaplega mikilvægt. Það er mjög mikilvægt að góð samstaða sé milli allra flokka en sérstaklega er mikilvægt að stjórnarandstöðuflokkarnir vinni vel saman í þessu máli.