137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson komst aftur að merg málsins í öllu þessu máli. Það skiptir ekki máli hvað fyrirvararnir eru sterkir, hvert innihald þeirra er eða hvort það séu aðfaraorð í fyrirvörunum um að þetta skuli vera bundið órjúfanlegum böndum því að um leið og ríkisábyrgð á þessum samningi verður samþykkt fellur hann úr íslenskri dómsögu og um hann gilda bresk lög. Samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi í Bretlandi og enskumælandi löndum er samningarétturinn afar sterkur og ef það eru dómsmál á sviði samningaréttar þá er það alltaf túlkað sem svo að samningar skuli standa. Þá eru samningarnir, þá eru ákvæði samninganna túlkuð eftir orðanna hljóðan og þá getur hv. þingmaður líklega ímyndað sér hvað yrði um þessa fyrirvara, sama hversu sterkir þeir eru. Þeim yrði ýtt út af borðinu því að Bretar og Hollendingar hafa aldrei viðurkennt að þeir væru til staðar. Þess vegna er það svo mikill ábyrgðarhluti af þeirri ríkisstjórn sem nú situr að það skuli hreinlega vera enn þá í gangi blekkingar og hálfsannleikur í þessu máli og að málið skuli vera rekið með þeim hætti að þessir fyrirvarar hafi eitthvað að segja í þessum samningi.

Nú fer málið til 3. umr. og við skulum við sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu. Mig langar að lokum að spyrja þingmanninn að því, nú sýnast mér skoðanir hans miðað við andsvar hans áðan orðnar ansi nálægar skoðunum Framsóknarflokksins að raunverulega kalli sú staða sem kom upp í þinginu í dag og í gær á nýjar viðræður, gæti þá ekki þingmaðurinn hæglega gengið í lið með okkur framsóknarmönnum og samþykkt þá tillögu sem liggur fyrir um að vísa samningunum frá og semja upp á nýtt við Breta?