137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg dásamlegt. Hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir bendir mér á að ræða þessi mál við Össur Skarphéðinsson því hún sé ekki talsmaður hæstv. utanríkisráðherra en samt eyðir hún megninu af ræðu sinni í að túlka orð hans. En það er ágætt. Ég ætti kannski að tala við fjölmiðlafulltrúa og spunameistara Samfylkingarinnar varðandi þessi ummæli hans því að það er á þessum orðum að merkja að ríkisstjórnin sé orðin mjög stressuð og óróleg yfir því í hvaða ferli Icesave-samningarnir eru komnir: Það er þrautseigju stjórnarandstöðunnar að þakka að málið er ekki komið í gegn því ég þreytist ekki á að minnast á það að samningana áttum við ekki að sjá.

Hv. þingmaður vísar líka til fjárlaganefndar þeirri spurningu sem ég spyr um samþykkt Frakka og dóm Evrópudómstólsins varðandi samkeppnisákvæði ríkisábyrgðar á innstæðureikningum. Það vill þannig til að þegar alþingismaður fer í andsvar við annan alþingismann þá vill sá sem spyr kannski fá einhver svör frá viðkomandi þingmanni sem byggjast á skoðun þingmannsins og tilfinningu og eldmóði þess þingmanns sem er spurður. En gott og vel.

Hv. þingmaður vísar þessu inn í fjárlaganefnd og ég tek tillit til þess. Þá langar mig á ný að spyrja hana í seinna andsvari: Hefur þingmaðurinn trú á því að þeir fyrirvarar sem nú liggja fyrir rúmist innan samningsins? Ef hún telur þá rúmast innan samningsins, þá hvers vegna? Samkvæmt grein 13.1.1 í breska samningnum og 12.1 í hollenska samningnum má ekki breyta einu orði í samningnum, þá geta Bretar ýtt honum út í þá dómstólaleið sem þeir hafa í Bretlandi.