137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:33]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að blása mér eld í brjóst og mun ég hugsanlega leita til hennar með það hvernig ég geti talað af eldmóði því slíkt hefur þingmaðurinn viðhaft þó ég haldi að áherslur í ræðustól séu ekki það sem öllu máli skiptir.

Mig langar aðeins í tengslum við fyrra andsvar mitt að benda á að ég er með orð hæstv. utanríkisráðherra fyrir framan mig þar sem stendur: „Alþingi er fulltrúi þjóðarinnar allrar, það ræður fyrir Íslendingum.“ Það getur munað mikið um slíkt.

Í tengslum við það hvort ég haldi að þeir fyrirvarar sem hér hafa verið settir rúmist innan samningsins þá ætla ég að hafa þá trú að þeir muni ekki setja samninginn í uppnám a.m.k. vegna þess að samningar eru einu sinni þannig. Það var vitað að þeir mundu fara til Alþingis og ég geri ráð fyrir því að það verði farið með þessa fyrirvara aftur til Breta og Hollendinga, útskýrt fyrir þeim og, eins og hefur verið sagt svo ágætlega, með skapandi hugsun þá má ýmsu breyta.