137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:47]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þá einlægni og hreinskilni sem kom fram í svari hans varðandi hvernig málið væri afgreitt út úr ríkisstjórn. Það verður að teljast í hæsta máta óeðlilegt að stjórnarfrumvarp sé lagt fram með þessum hætti þegar fyrir fram er vitað að ráðherra í öðrum stjórnarflokknum fylgir ekki ríkisstjórninni að máli. Það þykir mér ámælisvert. Það hefði átt að beina sjónum ríkisstjórnarinnar að því að þetta mál þyrfti að leysa með einhverju öðru móti en leggja fram frumvarp eins og hér var gert.

Ég þakka enn og aftur hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þessa einlægni og þetta skýra svar og lýsi enn og aftur undrun minni og furðu á framkomu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra.