137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:48]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir ræðu hans og ég vil leyfa mér að taka undir margt af því sem þar kom fram. Þó finnst mér mikilvægt að fá það aðeins nánar fram hjá hæstv. ráðherra sem lýtur að aðkomu þingsins í þessu máli. Hann hefur fagnað því að þinginu hafi tekist að taka málið upp úr hinum flokkspólitísku förum. En hverjir voru það sem vildu halda málinu í hinum flokkspólitísku förum aðrir en stjórnarflokkarnir tveir sem héldu stjórnarandstöðunni frá þessu máli alveg fram yfir að skrifað hafði verið undir samningana sjálfa? Meginatriði þeirra var kynnt á lauslegum fundum sama daginn og skrifað var undir. En er það ekki smám saman að koma í ljós að langstærstu mistökin sem gerð hafa verið í þessu máli voru í fyrsta lagi þau að vinna það til enda án aðkomu allra þingflokka á Alþingi þannig að því var haldið af ríkisstjórninni sjálfri í flokkspólitískum hjólförum? Og í öðru lagi, sem er stórmerkilegt, þegar kom fram í umræðu á þinginu að meira að segja í andstöðu við einstaka ráðherra í ríkisstjórninni var málið lagt fram? Þess vegna hafa afdrif þessa máls orðið þau sem raun ber vitni, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. forsætisráðherra, lét sér það í léttu rúmi liggja hvort hún hefði meiri hluta fyrir málinu þegar það var lagt fram á þinginu. Það virðist vera þannig með nokkur mál sem almennt mætti álíta að væru stórmál, Evrópusambandið, Icesave-samningarnir og önnur slík, að hæstv. forsætisráðherra sé nokk sama hvort hún hafi fyrir fram meiri hluta fyrir slíkum málum. Hún virðist bara ætla að láta kylfu ráða kasti með endalok slíkra mála á þinginu. Er það ekki þetta tvennt sem eru í reynd stærstu mistökin sem ríkisstjórnin hefur gert og helstu ástæður þess að það hefur tekið okkur núna bráðum, eru ekki komnar 10 vikur sem við erum búin að vera að hnoðast með þetta mál og við erum ekki enn þá komin að endanlegri niðurstöðu?