137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef við erum sammála um að það hafi verið til góðs að taka þetta mál upp úr hinum flokkspólitísku hjólförum þá hljótum við einnig að vera sammála um hitt að nú á ekki að troða því niður í þau hjólför aftur. Það hefur verið okkar ógæfa allt frá hruninu í október í fyrra að okkur hefur allt of sjaldan tekist að taka á málum saman. Sum mál eru nefnilega stærri en svo að við getum leyft okkur að ganga klofin til afgreiðslu þeirra, hvort sem um er að ræða innan þingsins eða utan. Þjóðin hefur ekki efni á því að ganga klofin til þessara stóru mála. Það var því miður gert allt of oft í haust leið. Þá voru gefnar skuldbindingar fyrir hönd þjóðarinnar sem ég gef reyndar lítið fyrir. Þegar einstaklingur eða þjóð er með hnífinn á barkanum þá er lítið að marka hvað hún gerir, segja mér lögspekingar, og horfi ég nú beint í augun á hv. þm. Atla Gíslasyni.

Ég held að í þessu máli sem og öðrum af þessari stærðargráðu eigum við að hefja okkur upp úr hjólförunum og horfa núna fram á við. Getur ekki hv. þingmaður, formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson verið sammála mér um það?