137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vill þannig til í þessu máli að ég og hæstv. ráðherra erum efnislega nokkurn veginn sammála um það hvernig best sé að taka á þessu máli. Þess vegna get ég verið honum sammála um þessa prinsippafstöðu að þurfi menn að taka málið upp úr flokkspólitískum hjólförum þá sé nauðsynlegt að gera það til að komast að skynsamlegri niðurstöðu. En það breytir ekki sögu málsins, þeirri staðreynd að sú ríkisstjórn sem hann situr í kaus að fara aðra leið og tefldi málinu í heild sinni í mikla tvísýnu, bæði fyrir þinginu en auðvitað ekki síður í samskiptum við þær þjóðir sem við eigum svo mikið undir sem raun ber vitni um þessar mundir.

Þess vegna verð ég að halda því á lofti að mér finnast helstu tíðindin í ræðu hæstv. ráðherra vera þau að málið skuli í reynd hafa verið lagt fyrir þingið gegn vilja hans og síðan hitt að hann sé þeirrar skoðunar að svona mál eigi að vinna á breiðum pólitískum samstarfsvettvangi þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi valið að gera allt annað.