137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Lengi er von á einum. Þegar maður var farinn að örvænta um stöðu íslenskra stjórnmála og sérstaklega náttúrlega þessa ríkisstjórn sem ég er ekki hrifinn af þá steig hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson fram og sannaði það að sú ímynd sem ég held að þjóðin hafi af honum sem heiðarlegum prinsippmanni er sönn. En hæstv. ráðherra sýndi líka mikið hugrekki í því að tala á þeim nótum sem hann hefur gert. Með því er hann í rauninni búinn að breyta framþróun íslenskra stjórnmála á vissan hátt og breyta sögunni til hins betra, tel ég að þegar sé orðið ljóst.

En málið er ekki alveg komið í höfn enn þá. Það eru stór óvissuatriði enn þá hangandi yfir okkur og þó sérstaklega það sem hefur verið rætt í þinginu í dag, hvort þeir fyrirvarar sem er sæmilega breið samstaða um, komi til með að halda þegar á hólminn er komið. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti ekki tekið undir það með mér að við verðum að fá úr því skorið hvort þessir fyrirvarar komi til með að halda. Þá duga ekki þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í þessu máli fram að þessu, við verðum að leita eftir utanaðkomandi ráðgjöf og fá a.m.k. álit einhvers sem þekkir til enskra laga því það er alveg ljóst að samkvæmt þessum samningum gilda ensk lög og öll álitaefni sem upp kunna að koma verða leidd til lykta fyrir enskum dómstólum. Ég tel því ákaflega mikilvægt að ef á að vera hægt að ná saman um þetta mál og ef þingið á að geta greitt atkvæði um það með sæmilega góðri samvisku þurfum við að hafa vissu fyrir því að það sem hér verður ákveðið hafi eitthvað að segja.