137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hlý orð í minn garð. Varðandi þetta stóra álitaefni sem hefur verið til umræðu í dag þá treysti ég mér ekki til að kveða upp úr um það af neinni þekkingu, treysti því að fjárlaganefnd leiti ráða hjá fróðum aðilum og hægt að gera það bæði innan lands og utan á tímum tölvusamskipta. Mér finnst eðlilegt að farið verði rækilega í saumana á þessum málum.

Ég hef lýst þeirri afstöðu minni sem leikmanns, sem stjórnmálamanns og sem fulltrúa á Alþingi Íslendinga að ég tel að þegar um er að tefla fjármuni sem fara úr íslenskum ríkiskassa þá sé hið endanlega orð hér, hjá löggjafarvaldinu, hjá fjárveitingavaldinu á Íslandi. Ef það er svo að ef erlendar þjóðir hvort sem það eru dómstólar eða ríkisstjórnir vefengja þennan rétt okkar þá eru þær þar með að vefengja fullveldi okkar og þá erum við farin að tala á einhverjum allt öðrum nótum. Frá mínum bæjardyrum séð eru ákvarðanir um fjárútlát úr ríkissjóði Íslands teknar í þessum sal.