137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[19:46]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegur forseti. Ég tek hér aftur til máls um þetta mál, Icesave, sem svo illa hefur farið í fólk undanfarna daga og mánuði. Ég átti ekki von á því sjálfur að þurfa að taka aftur til máls vegna þessa, ég hélt að málið eins og það kom út úr fjárlaganefnd hefði verið afgreitt nægilega afgerandi þannig að það ekki þyrfti mjög langar umræður í 2. umferð.

En það hefur verið kastað inn nokkuð mörgum óvissuþáttum í þessu máli í umræðunni og eru þar efst á blaði þær hugmyndir hv. varaformanns fjárlaganefndar, Björns Vals Gíslasonar, sem hann reifaði hér í morgun um að öll sú vinna sem fjárlaganefnd hafi innt af hendi á meðan hann var í fríi frá störfum í nefndinni hafi verið einskis nýt og tilgangslaus og skipti engu máli. Mér finnst svolítið harkalegt og þori í rauninni ekki að halda áfram stuðningi mínum við málið undir slíkum kringumstæðum. Ég tel að það hafi komið upp slík óvissa í framhaldi af ummælum hans og í framhaldi af ummælum margra í dag að slíkri óvissu verði að taka á og reyna að eyða með einhverju móti.

Hér er fyrst og fremst um tvo meginóvissuþætti að ræða sem skipta gríðarlega miklu máli. Annar þeirra lýtur að tímatakmörkun ríkisábyrgðarinnar, sem við afgreiðslu fjárlaganefndar þótti nokkuð skýrt að væri í gildi frá árinu 2016 til 2024, og að þær greiðslur sem hugsanlega kynnu að standa út af miðað við þá reiknireglu sem notuð er við útreikninga á greiðslum af Icesave-skuldbindingunum mundu falla niður að þeim tíma loknum. Hér kom hins vegar í morgun varaformaður fjárlaganefndar og var með allt annan skilning á þessu máli. Hann talaði þannig að einfaldlega væri um það að ræða að ef eitthvað gengi af í lok tímabilsins yrði bara sest niður og samið um það sem út af stæði og alveg sjálfsagt mál að greiða það. Hann tók ekkert tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komu í fjárlaganefnd um að með því að fella niður afganginn mundu Bretar og Hollendingar taka á sig skerf af þeirri áhættu sem fylgir þessum skuldbindingum. Sú áhætta er fyrst og fremst fólgin í þeim mjög háa vaxtakostnaði sem Íslendingar þurfa að greiða, 5,5,% sem gerir það að verkum að Bretar og Hollendingar ná þarna hagnaði upp á 180 punkta. Af þessari upphæð er það einfaldlega gríðarlega mikið fé.

Ég veit ekki í sjálfu sér hver framvindan af þessu máli verður hér eftir en það er alveg greinilegt og hefur komið fram í máli mjög margra þingmanna, og m.a. þeirra sem eru í fjárlaganefnd, að þessari óvissu þurfi að eyða með einhverjum hætti. Fjárlaganefndarmenn hafa verið að reyna að ræða málin í dag til þess að finna leið til að laga þennan óvissuþátt en ekki komist að niðurstöðu um hvernig það gæti orðið.

Hinn þátturinn í málinu lýtur að gildi allra þeirra fyrirvara sem voru samdir og settir inn en það kom líka fram í máli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar í morgun að þeir hefðu ekkert gildi og væru tilgangslausir og skiptu engu máli. Ekki veit ég hvort það er almennur skilningur fjármálaráðherra, sem er formaður þess flokks sem varaformaður fjárlaganefndar er í, en ef það er svo er það náttúrlega mjög alvarlegt mál. Þá þarf einfaldlega að taka þetta mál til gagngerrar endurskoðunar í fjárlaganefnd. Þetta hefur líka verið rætt óformlega á göngunum hér í dag en ekki fengist niðurstaða í það með hvaða hætti ætti að ganga frá því.

Þess vegna tel ég rétt að hnykkja á því úr þessum stól að í svona gríðarlega stóru og alvarlegu máli sem skiptir miklu fyrir framtíðarhagsmuni allra Íslendinga að þessum óvissuþáttum verði eytt. Það verði skýrt tekið fram að þeir fyrirvarar sem fjárlaganefnd hefur sett við þessar skuldbindingar haldi. Það er hægt að gera með því að setja inn ákvæði í breytingartillögurnar sem liggja fyrir um að ríkisábyrgðin taki einfaldlega ekki gildi fyrr en bresk og hollensk yfirvöld hafi samþykkt fyrirvarana eins og þeir liggja fyrir og eins að það komi skýrt inn ákvæði sem snýr að sólarlaginu í þessum samningum eða í ríkisábyrgðinni, þ.e. að árið 2024 falli ríkisábyrgðin niður og þar með er punktur settur fyrir aftan dæmið. Það yrði svo hugsanlega bara á valdsviði þess Alþingis eða þeirrar ríkisstjórnar sem þá situr með hvaða móti, ef einhverju, yrði tekið á þeim afgangi sem hugsanlega út af stæði.

Eins og ég hef áður tæpt á og allir þingmenn sem hafa talað hér er þetta eitthvert stærsta mál sem komið hefur inn fyrir veggi þingsins og óásættanlegt að afgreiða það í einhverri óvissu, það er algjörlega óásættanlegt. Því legg ég áherslu á að viðunandi niðurstaða náist í þessa óvissuþætti. Ég er sjálfur sannfærður um það eftir samtöl mín við þingmenn í dag að ef þessum tveimur meginóvissuþáttum yrði eytt með nýjum ákvæðum í breytingartillögunum mundi nást mjög breið samstaða um afgreiðslu þessa máls á þinginu. (Gripið fram í.) Ég hef jafnvel hugmyndir um að Alþingi mundi hugsanlega í eitt af örfáum skiptum sögunnar afgreiða hér mál út úr þinginu 63:0. Það held ég að sé þess virði að skoða málið betur ef slíkt gæti orðið raunin og fyllilega ástæða til að menn taki þessar hugmyndir mjög alvarlega og skoði þær með opnum huga. Þetta eru mjög einföld ákvæði og þau eru ekki mikil viðbót við það sem fyrir er í breytingartillögunum og þau eru ekki þess eðlis að þau mundu hafa afgerandi áhrif á bresk og hollensk stjórnvöld. Þau mundu fyrst og fremst eyða þeirri óvissu sem við stöndum frammi fyrir og sem er óþolandi, og þau mundu líka eyða þessum — það er kannski ekki rétt að kallað það misskilning — heldur þessum mismunandi skilningi sem annars vegar varaformaður fjárlaganefndar hefur á málinu og hins vegar flestallir aðrir þingmenn, því að það hefur enginn talað með þeim hætti sem hann gerði hér í morgun nema hann sjálfur. Hann hefur að vísu verið úti á sjó þann tíma sem unnið hefur verið við málið og það er full vinna að vera skipstjóri á togara, það er alveg á hreinu. Það getur því verið að honum sé algerlega óljóst hvað var hér í gangi. Ef svo er tel ég einfaldlega rétt að hann komi hér og segi það og dragi þá orð sín til baka og viðurkenni að hér hafi verið um reginmisskilning af hans hálfu að ræða.

Hér er í gangi lýðræði, frú forseti, hér reyna menn að komast að samkomulagi. Þetta er ekki brú á skipi, þessi ræðustóll, þar sem menn tala hér í tilskipunum niður til annarra þingmanna. Það eru menn sem þurfa að gera sér grein fyrir því líka í þessu máli. Þetta er mjög alvarlegt mál. Það er mjög góður möguleiki á því að lenda því með afgerandi meiri hluta Alþingis sem hefði gríðarlega mikið að segja fyrir stöðu þingsins og stjórnvalda út á við til útlanda. Ég held að það sé alveg fyllilega þess virði að við notum þetta tækifæri og reynum að afgreiða þetta mál eins sómasamlega og hægt er.