137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:00]
Horfa

Þór Saari (Bhr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að ný vinnubrögð hafa verið tekin upp og ég vil taka undir það sem hún sagði að á þingi er mjög margt nýrra þingmanna. Sumir þeirra hafa eindregið lagt til að þessum nýju vinnubrögðum verði beitt en ég hef jafnframt tekið eftir því að fjölmargir fóru beinustu leið á fyrsta degi ofan í flokkspólitísku hjólförin sem hafa alltaf verið viðhöfð hér. Ég upplifði það sjálfur að horfa á fólk koma inn með skærlogandi kerti og glampa í augum sem slokknaði á fyrsta degi. Það var svolítið sorglegt að horfa á það en ég horfði beinlínis á það.

Það er okkar þingmanna að breyta þessum vinnubrögðum og við getum það ef við einbeitum okkur að því og tökum einfaldlega sénsinn á því að við stefnum sennilega flestöll að einhvers konar sameiginlegu markmiði bara eftir mismunandi leiðum. Það er oftar en ekki frekar lítið því til fyrirstöðu að fólk geti ferðast saman á þeirri leið.