137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í dag og í gær hefur farið fram mjög ítarleg umræða um Icesave-samninginn, kosti hans og galla. Það sem menn hafa rætt mjög mikið um er þessi lögfræðilega afmörkun, hvenær gildir þessi samningur og halda þessi viðmið? Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að ég hef dálitlar áhyggjur af því, ég er ekki löglærður og síst af öllu er ég löglærður í enskum rétti sem á að gilda fyrir báða samningana; við hollensku ríkisstjórnina og við þá bresku. Þess vegna legg ég mikla og ríka áherslu á það að hv. nefnd sem fær þetta milli 2. og 3. umr., hv. fjárlaganefnd fái þá bestu sérfræðinga á því sviði, í enskum rétti. Og ekki bara einn, a.m.k. tvo eða þrjá, menn sem hafa kennt þetta, menn sem hafa unnið eftir þessu og vita nákvæmlega hvað um er að ræða þegar kemur að því að túlka lög og reglur milli landa o.s.frv. Það liggur svo mikið við, frú forseti, að það má ekki bregðast. Við þurfum að hafa þetta nákvæmlega rétt. Ég er hins vegar mjög sannfærður, bara út frá einfaldri rökhyggju, að ef ég lít í stjórnarskrána sem við þingmenn höfum svarið eið að og gildir ofar öllum lögum, þá stendur þar í 40. gr., með leyfi frú forseta:

„Engan skatt má leggja né breyta né af taka nema með lögum“. Síðan stendur: „Ekki má heldur taka lán er skuldbinda ríkið né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“

Þetta segir mér að ekki má taka lán, það má ekki skuldbinda ríkissjóð nema með lögum frá Alþingi. Það þýðir að þó að eitthvert fólk úti í bæ, frú forseti, ég vil kalla það það, geri samning þar sem stendur að ríkið ábyrgist eitthvað — og það skiptir ekki máli hvaða embætti það fólk gegnir — þá hefur það ekkert gildi nema á Alþingi verði sett lög sem heimila ríkisábyrgð á þeim gerningi. Ef Alþingi í þessu tilfelli samþykkir samninginn þá er komin á hann ríkisábyrgð eftir öllum ákvæðum þess samnings, sem ég hef reyndar margoft farið í gegnum að geta verið mjög hættuleg með ákveðnum líkum, geta líka verið hættulaus eða svo nánast með öðrum líkum. Ég ætla að fara í gegnum það aftur. Ég fór reyndar í gegnum það í morgun en ég hef dálítið orðið var við að menn hafa ekki alveg skilið hvað áhætta er. En Alþingi getur líka hafnað og það getur samþykkt og þar af leiðandi hlýtur það að geta eitthvað þar á milli, sem sagt samþykkt með skilyrðum. Ef Alþingi samþykkir ríkisábyrgð með skilyrðum, t.d. gæti Alþingi sett sem skilyrði að það borgaði allt að einni milljón í þessum samningi og ekki krónu meir, þá yrði það bara þannig, þá mundi Alþingi greiða allt að 1 millj. kr. og ekki meir. Það þætti eflaust einhverjum lítið, þeir sem eiga í þessum samningi. En þannig vinnur ríkisábyrgðin.

Nú skulum við gefa okkur það eins og menn hafa talað um að menn vilji aðskilja ríkisábyrgðina og skilyrðin, sem er reyndar dálítið skrýtið vegna þess að í 2. mgr. 1. gr. breytingartillagnanna stendur, með leyfi frú forseta: „Ríkisábyrgðin afmarkast að öðru leyti af ákvæðum samninganna [þ.e. samninganna við Breta og Hollendinga] og fyrirvörum þeim sem koma fram í lögum þessum. Fyrirvararnir eru óaðskiljanlegur hluti ríkisábyrgðarinnar.“ Mér sýnist að með þessu, frú forseti, sé nákvæmlega sagt að ríkisábyrgðin gildi samkvæmt þessum lögum og það er ekki hægt að aðskilja hana einhvern veginn frá þessum lögum því að ríkisábyrgð, samkvæmt 40. gr. stjórnarskrárinnar, skal setja með lögum og hún er sett með þessum lögum, með efnahagslegu fyrirvörunum, með lagalegu fyrirvörunum o.s.frv.

Nú skulum við hugsa okkur að einhver breskur dómstóll, af því að ég þekki það ekki nákvæmlega, komist að þeirri niðurstöðu að það sé ríkisábyrgð á þessu. Hann gefi ekkert fyrir íslenska stjórnarskrá og segi bara: Ríkissjóður Íslands á að borga þetta. Hvað gerir hann? Hann sendir þá væntanlega reikning til Íslands eða sá sem vinnur það mál í Bretlandi sendir reikning yfir til Íslands. Hér á Íslandi munum við segja: Nei, það er engin ríkisábyrgð á þessu. Við borgum þetta ekki. Hvað gerir maðurinn þá, viðkomandi kröfuhafi? Hann fer væntanlega fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og kærir, vill fá greitt og segir: Það er ríkisábyrgð á þessu samkvæmt þessum samningi. Héraðsdómur fellir einhvern úrskurð og það fer örugglega fyrir Hæstarétt og Hæstiréttur dæmir samkvæmt stjórnarskrá í vafaatriðum. Hann mun segja: Það verður ekkert greitt út úr ríkissjóði nema það sem er í lögum. Síðan mun Hæstiréttur fletta upp þeim lögum sem við erum hér að ræða frumvarp að, ef það verður að lögum mun hann fletta upp í þeim lögum og sjá að þar stendur að það eru ákveðin skilyrði. Hann mun spyrja: Eru þau skilyrði uppfyllt? Svo er ekki því að annars hefði ekki komið til málssóknar úti í heimi. Hann mun segja: Nei, úr ríkissjóði Íslands verður ekki greidd króna umfram það sem stendur í þessum lögum. Þá þætti mér athyglisvert hvernig breskur réttur ætti að gilda umfram dóm Hæstaréttar á Íslandi.

Þetta er eins og hér hefur verið nefnt í umræðunni, þetta er nefnilega spurning um fullveldi Íslands, hvort menn viðurkenni það eða ekki. Það að reikna með því að breskur dómstóll geti sagt að ríkisábyrgðin gildi en ekki fyrirvararnir er þar af leiðandi í mínum huga ekki rökrétt og fær ekki staðist. En ég vil fá mjög nákvæma útlistun á þessu í hv. fjárlaganefnd. Hún þarf að fá til sín a.m.k. tvo, helst þrjá sérfræðinga í enskum rétti. Og þó að það kosti verður það þannig að vera vegna þess að hagsmunirnir eru svo gífurlegir. Þetta má ekki klikka. Ég get ekki staðið að þessum tillögum ef það er einhver minnsti vafi á að þær klikki. Það er bara þannig en ég vona að þetta haldi alveg skothelt og ég vona líka að allir alþingismenn geti sameinast um að styðja frumvarpið þannig að þetta verði 63:0 helst því að þannig er það auðvitað sterkast.

Þetta mál allt saman hefur verið mikið rætt úti í þjóðfélaginu og á Facebook eru 37 þúsund manns sem segja: Við greiðum ekki. 37 þúsund manns. Þjóðin vill almennt ekki greiða. Ég vildi heldur ekki greiða, svo því sé haldið til haga. En nú erum við komin í þá stöðu sem við höfum í dag og staðan er sú að fjármálaráðherra landsins er búinn að skrifa undir samning í umboði ríkisstjórnarinnar og við þurfum að vinna út frá þeirri stöðu. Við getum ekki hafnað því, ég hef fært rök fyrir því áður, við þurfum að vinna út frá þeirri stöðu. Ég tel að sá samningur sem við erum að ræða og þær hugmyndir sem hér hafa verið ræddar séu besta lausnin út úr þeirri stöðu sem búið er að koma okkur í. Hér hefur verið gerður fjöldinn allur af mistökum, bæði löngu fyrir hrun, rétt fyrir hrun, eftir hrun, sérstaklega. Þá var mikið óðagot, mikil pressa, mikill þrýstingur og mikil kúgun í gangi og maður á kannski að sýna því ákveðinn skilning að þarna hafi verið gerð mistök. Núna eru gerð mistök í ákveðnum hraða og það er eitthvað sem við hv. þingmenn búum við. En við þurfum að vinna út frá þessari stöðu og ég tel að þær efnahagslegu hugmyndir sem hér hafa komið fram, þeir lagalegu fyrirvarar sem eru í þessari tillögu séu eiginlega mjög góð lausn til að verja þjóðina fyrir þeim áföllum sem samningurinn gat hugsanlega haft í för með sér fyrir þjóðina og hefði í vissum tilfellum getað varpað henni í áratugafátækt.