137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:16]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mig langar að taka undir þær athugasemdir sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór með á undan mér í ræðustól vegna þess að orðin sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson notaði áðan er eitthvað sem maður heyrir iðulega í sölum þingsins. Nú ætla ég að leyfa mér að vitna í orð hv. þingmanns sem notaði orðin „vítaverð vinnubrögð“ í ákveðinni nefnd í þingsölum. Það er einfaldlega lýsingarorð sem er ekki svo sterkt miðað við þau vinnubrögð sem hafa tíðkast hjá meiri hlutanum á Alþingi. Þegar náttúruverndaráætlun var þröngvað út úr umhverfisnefnd, ég nefni sem dæmi, og þegar þessu máli var þröngvað út úr efnahags- og skattanefnd. (Gripið fram í: Allt vítavert.) Þetta er allt vítavert og það er einfaldlega ekki of djúpt í árinni tekið með það. Ég óska eftir því að hæstv. forseti upplýsi okkur þingmenn um það hvaða fleiri orð það eru að mati hæstv. forseta sem við megum ekki nota hér í kvöld.