137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, það er þessi endalausi ágreiningur sem er algjörlega óþarfur í flestum tilfellum. Ég var stödd á þessum umhverfisnefndarfundi og þar fór allt í bál og brand. Allt í einu kemur upp úr dúrnum að rífa þurfti órætt mál, náttúruverndaráætlun, út úr umhverfisnefnd. Við í stjórnarandstöðunni vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið. Það var tekið út í mikilli óþökk okkar í minni hlutanum og meira að segja var það svo að við skiluðum sérnefndaráliti því að við höfðum ekki forsendur til að skila efnislegu nefndaráliti, það var að forminu til. Svo kom náttúrlega í ljós að ríkisstjórnin setti sér háleit markmið og örugglega metnaðarfull. Ég fór að rýna í þessa 100 daga áætlun. Jú, það var þá það, það þurfti að rífa þetta út úr umhverfisnefnd út af því að náttúruverndaráætlunin var á 100 daga áætluninni.

Svona er lýðskrumið, svona er þetta búið að vera, (Forseti hringir.) það er ekki nokkur einasti vilji til að starfa með öðrum þingmönnum, (Forseti hringir.) framkvæmdarvaldið ræður hér, það er alveg ljóst.