137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hennar. Það er alveg klárt hvernig ég lít á málin. Hv. þm. Björn Valur Gíslason talaði raunverulega á þann hátt eins og málið stendur. Hann sagði að ekki hefði neitt nýtt komið inn í samninginn síðan 18. júní og að samningurinn stæði eins og hann er og honum yrði ekki breytt. Að þessu leyti er ég sammála hv. þm. Birni Vali Gíslasyni vegna þess að það ríkir svo mikil lagaleg óvissa um það hvort fyrirvararnir hafi eitthvað að segja. Eins og ég hef margbent á í grein 13.1.1 í breska samningnum og 12.1 í hollenska samningnum er einungis heimilt að gera breytingar á Icesave-samningunum, bæta við þá eða falla frá efnislegum atriðum með skriflegu samkomulagi milli samningsaðila.

Eins og staðan er núna eru fyrirvararnir ekki gildir því að við höfum ekki skrifað undir fyrirvarana eins og er búið að skrifa undir samningana. Það er því alveg skýrt að það er staðan núna. Ég veit ekki hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að gera, hvort hún láti sér nægja að vera í einhverju skriflegu sambandi við Breta og Hollendinga.

Af hverju er þetta fólk ekki einhvers staðar úti, af hverju er þetta fólk ekki að ræða við hagsmunaaðila okkar? Af hverju hanga þessir hæstv. ráðherrar hér heima á þessu skeri og eru að reyna að snúa okkur? Þeir eiga að vera úti í heimi, tala máli okkar og gera þetta bara.

Varðandi það sem hv. þm. Eygló Harðardóttir var að tala um forgangsröðunina, það er alveg klárt að Icesave-samningarnir ryðja fyrirvörunum fyrirvaralaust (Forseti hringir.) burtu.