137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta verður líklega aldrei of oft kveðið hér úr þessum ræðustól í þessum umræðum, forgangsröðunin og ríkisábyrgðin. Að sjálfsögðu vilja Bretar og Hollendingar að Alþingi veiti ríkisábyrgð á þennan samning því að annars tekur hann ekki gildi, það er alveg skýrt. Það stendur í Icesave-samningunum að til þess að þeir taki gildi þurfi Alþingi að samþykkja ríkisábyrgð. Þetta er samtvinnað, það er ekki hægt að skilja þetta í sundur af því að Icesave-samningarnir eru svo íþyngjandi fyrir okkur sem þjóð.

Auðvitað vilja þeir að Alþingi afgreiði málið og þeir fái ríkisábyrgðina því að um leið og Alþingi er búið að afgreiða Icesave-samningana detta þeir í breska lögsögu og um þá dæma breskir dómstólar eftir breskum lögum. Þá skipta fyrirvararnir engu máli því að þá segja Bretar og Hollendingar: Þið verðið að afsaka en við erum komin með ríkisábyrgðina, samningurinn stendur hér. Við dæmum eftir „common law“ sem er allt annað en réttarkerfið ykkar. Þar er samningsréttur svo sterkur að það er ekkert einasta ákvæði sem er fyrir utan samninginn sem er hægt að hengja sig á, (Forseti hringir.) hvað þá fleiri blaðsíður af fyrirvörum.