137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað erum við sammála um að sérfræðingar sem eru vel að sér í breskum lögum þurfi að koma fyrir fjárlaganefnd þar sem þingmenn geti spurt þegar eru vafaatriði. Við erum örfáir lögfræðingar í þinginu og okkur greinir meira að segja á um túlkun þessa samnings. Það er alveg orðið tímabært að hér verði kallaðir til færir sérfræðingar sem hafa reynslu bæði af samningsrétti og ekki síst reynslu af því að vinna í því lagakerfi sem er í hinum engilsaxnesku löndum.

Hv. þm. Pétur Blöndal spyr mig í seinni spurningu hverju þurfi að breyta til að Framsókn verði með. Það er mjög einfalt. Fyrir þinginu liggur breytingartillaga sem gengur út á það að þessu máli verði vísað frá um stundarsakir, það verði lagt til hliðar og það verði farið að semja upp á nýtt við Breta og Hollendinga og það verði gert á forsendum nauðungar, að okkur sé nauðugur sá kostur að semja upp á nýtt.