137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við lok 2. umr. erum við með frumvarpið um ríkisábyrgðina í þeim búningi að þó nokkur vinna er fram undan fyrir fjárlaganefnd til að betrumbæta málið enn frekar.

Vinnunni við þetta mál er hvergi nærri lokið. Nú liggja fyrir þinginu breytingartillögur sem við göngum til atkvæða um. Sjálfstæðisflokkurinn hyggst styðja þær breytingartillögur sem stafa frá meiri hluta fjárlaganefndar en þær duga þó engu að síður ekki til að afla stuðnings við málið í heild sinni þannig breytt. Það þarf að ganga lengra, það þarf að taka bæði lagalegu og efnahagslegu fyrirvarana og þétta þá og koma til móts við þær athugasemdir sem fram hafa komið í umræðunni. Sjálfstæðisflokkurinn teflir ekki fram breytingartillögum á þessu stigi málsins heldur hefur kosið að vinna að þeim athugasemdum sem við höfum haft fram að færa í nefndinni. Það þarf að halda því áfram. Við teljum ekki rétt að vísa málinu til ríkisstjórnar meðan það er enn í vinnslu þingsins.