137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hægt að velja svo mörg orð um það hvort um er að ræða gerbreytingu á máli eða ekki en ég tel auðvitað að þeir fyrirvarar sem settir eru séu gríðarlega mikilvægir og hafi veruleg áhrif á samninginn sem slíkan, annars hefðum við ekki verið að setja þá. Allt frá því að við hófum vinnuna í fjárlaganefnd reyndum við að kortleggja það sem við töldum vera veikleikann við samningsgerðina, bæði vegna þess að samninganefnd tók ekki á ákveðnum atriðum vegna þess sem lagt var fram með en einnig vegna þess að við vildum viðhalda ákveðnum þáttum í þessu máli. Þetta var allt saman sett inn í fyrirvara og það er ekki gert bara að gamni, það er gert vegna þess að það skiptir máli og vegna þess að það eru breytingar og fyrirvarar sem skipta gríðarlega miklu í þessu máli. Ég vil taka undir það að hér hafa orðið verulegar breytingar á málinu og það styrkt í umfjöllun nefndarinnar. Enda er það hlutverk Alþingis að taka svona mál og vinna það til enda og gera þær breytingar sem Alþingi telur réttar og þannig höfum við unnið að málinu.