137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þingmanni. Það er alveg rétt hjá honum að frumvarpið um ríkisábyrgð hefur tekið gríðarlegum breytingum og fátt stendur eftir nema nokkrar línur úr því frumvarpi en þar hefur miklu verið bætt við. Ég svaraði óvart varðandi samninginn sem slíkan.

Varðandi þessa 1. mgr. og að við þurfum að fá staðfestingu frá Hollendingum og Bretum áður en gengið er frá samningum, það hefur svo sem alltaf legið fyrir en er skerpt í lokaumræðunni einfaldlega vegna þess að menn höfðu einhverjar efasemdir um að breytt lög mundu taka á þessu atriði. En það er klárlega töluvert umdeilanlegt hversu bratt á að fara í þetta ákvæði vegna þess að er eingöngu um að ræða einkaréttarlegan samning eða er þetta þjóðréttarlegur samningur? Að hve miklu leyti ætlum við að krefjast þess að hér verði gerðar einhverjar ítarlegar skýrslur eða pappírar? Við höfum valið að það þurfi að liggja fyrir staðfestingin á því að þessir fyrirvarar haldi frá þessum aðilum. Við gerum það viljandi að láta það vera afgreitt af öðrum aðilum einfaldlega vegna þess að þingið tekur um það afstöðu. Þingið er ekki í samningum við neinn (Forseti hringir.) og þess vegna er það fjármálaráðherra sem verður að fylgja þessu eftir og mun þá velja þá leið sem dugar og það er það sem skiptir okkur máli.