137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög hreinskilið svar þar sem hann svarar þessari spurningu minni á þann veg að hann hafi ekki hugmynd um það. Svo er um þá aðila sem hafa tjáð sig um þessi mál að þeir hafa ekki hugmynd um hvort Bretar og Hollendingar samþykki þessar breytingar. Það er mikil ábyrgð sem ríkisstjórn Íslands er nú að leggja á íslensku þjóðina að hafa ekki gengið úr skugga um þessi atriði fyrr því að eins og hv. þingmaður benti á og margoft hefur komið fram í ræðum mínum og annarra framsóknarmanna má ekki breyta samningunum samkvæmt grein 13.1.1. í breska samningnum og 12.1 í hollenska samningnum. Þess vegna er málið komið til 3. umr. og til afgreiðslu. Svör stjórnvalda eru þau að þau vita ekki hvort þetta frumvarp taki gildi samkvæmt breskum og hollenskum rétti. Við höfum margoft bent á að taki þessi ríkissamningur gildi án þess að Bretar og Hollendingar taki fyrirvarana gilda dettur samningurinn um leið í breska lögsögu og munu þá um hann gilda bresk lög. Og komi upp ágreiningur um málið dæma breskir dómstólar í málinu.

Ég vil því spyrja hv. þingmann Kristján Þór Júlíusson: Af hverju stóðu sjálfstæðismenn ekki með framsóknarmönnum í því í fjárlaganefnd þegar við óskuðum eftir því að hér kæmi aðili til ráðgjafar við nefndina sem hefði reynslu af breskum lögum og af störfum við breska dómstóla og hefði þekkingu á sviði alþjóðasamningaréttar og alþjóðarétti? Það var hugsað til þess að fjárlaganefnd gæti með einhverjum hætti þreifað á því hvort samningurinn hefði gildi eða hvort honum mætti breyta eins og allir þessir veigamiklu fyrirvarar kveða á um. Um málið ríkir enn fullkomin óvissa. Hér er verið að skuldbinda þjóðina upp að 1.000 milljörðum og óvissan er slík að hér skelfur allt.