137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki nema von og vekur í sjálfu sér enga furðu að það skjálfi allt ef hv. þingmenn standa í þeirri trú að bresk og hollensk stjórnvöld hafi eitthvað með það að gera hvort frumvarp sem Alþingi Íslendinga samþykkir sem lög taki gildi í Bretlandi eða Hollandi. Ég er þeirrar skoðunar, burt séð frá öllu og innihaldi þessa máls, að þau lög sem Alþingi setur gildi og ég þarf ekki að fá álit annarra þjóða á því. Ég tel alveg afdráttarlaust að þau lög sem sett verða um þessi skilyrði sé afdráttarlaus afstaða Alþingis Íslendinga og hún er ekkert undir Bretum og Hollendingum komin.

Ég bendi hv. þingmanni á að einn fulltrúi okkar í fjárlaganefnd kallaði eftir formlegum samskiptum íslenskra og breskra stjórnvalda varðandi álit þeirra á þessu máli. Þau svör sem við fengum voru ekki fullnægjandi og ég vænti þess að þeir ráðherrar sem eru viðstaddir þessa umræðu í dag upplýsi Alþingi um það hver afstaða Breta og Hollendinga til málsins er.

Varðandi þá athugasemd sem hv. þingmaður kom með svo snyrtilega að sjálfstæðismenn hefðu ekki stutt framsóknarmenn í að biðja um frekari gögn og upplýsingar, er hún röng. Sjálfstæðismenn hafa komið því rækilega á framfæri og gerðu það við umræðu í nefndinni að við mæltumst til þess að allar slíkar óskir yrðu virtar. Forræði málsins er hins vegar á hendi stjórnarmeirihlutans þannig að ábyrgðin liggur þar en ekki hjá sjálfstæðismönnum. Þessu vildi ég koma mjög skýrt á framfæri vegna þess að ég tel enga ástæðu til þess, ekki nokkra, að stjórnarandstöðuflokkar fari að efna til ófriðar sín á milli um það hvor hafi betur í þeirri pissukeppni sem mér virtist hv. þingmaður vera að efna til.